Frétt

Góður árangur í öryggismálum

30. júlí 2012

Eitt ár er liðið frá því að slys var skráð hjá Landsvirkjun. Öryggi er lykilatriði í rekstri orkufyrirtækja og í mörg ár hefur verið unnið markvisst að fyrirbyggjandi aðgerðum með það að markmiði að gera fyrirtækið að öruggum og slysalausum vinnustað þar sem öryggi starfsmanna er haft að leiðarljósi. 
Einu sinni áður hefur ár liðið án þess að slys sé skráð en það var árið 2010 og má það teljast fremur sjaldgæft hjá fyrirtækjum sem starfa á svipuðum vettvangi og Landsvirkjun (slys er skráð ef starfsmaður er frá vinnu vegna óhapps heilan dag eftir slys).

Landsvirkjun innleiddi markvissa öryggisstjórnun árið 1995 og var þá farið að skrá óhöpp og slys með skilgreindum hætti. Árið 2009 voru öryggismál sett enn frekar í öndvegi en þá fékk Landsvirkjun vottun samkvæmt OHSAS 18001 öryggis- og vinnuverndarstaðli en fyrirtæki sem starfa samkvæmt staðlinum þurfa sífellt að vinna að umbótum á öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Staðallinn á meðal annars að tryggja að öryggis- og heilbrigðismál séu órjúfanlegur þáttur í mats- og ákvörðunarferli við fjárfestingar, framkvæmdir, rekstur og kaup á vöru og þjónustu Landsvirkjunar.
Auk þessa hefur fyrirtækið innleitt  ISO 9001 staðalinn og við uppfylltar kröfur hans voru starfsmannamálum, þjálfun og vinnuverndarmálum gerð góð skil.  Árlega eru skráð hjá Landsvirkjun  um 500 úrbóta- og forvarnarverk sem tengjast öryggis- og vinnuverndarmálum og hefur það jafnframt  mikla þýðingu í forvarnarskyni í öryggisstjórnun fyrirtækisins.


 

Fréttasafn Prenta