Frétt

Heildarmiðlunarforði í lónum yfir meðalári

1. ágúst 2012

Þrátt fyrir að sumarið hafi verið þurrt víða um land má ekki sjá merki þess á stöðu miðlunarlóna Landsvirkjunar. Nú í lok júlí var staða miðlunarlóna um 9% hærri en á meðalári en þau hafa nú náð 92% fyllingu, þrátt fyrir að vatn hafi runnið óhindrað í farvegi Jökulsár í Fljótsdal og efri hluta Þjórsár frá því í maí.

Ástæður þessarar háu stöðu eru nokkrar. Síðasta haust var mjög langt og rennsli jökuláa talsvert alveg fram í lok nóvember. Sem dæmi má nefna að þann mánuð var fjórum sinnum meira innrennsli í Hálslón en búist var við. Milt haust skilaði síðan hárri stöðu miðlana í allan vetur. Á vormánuðum var leysing kröftug þar sem mikill snjór hafði safnast upp á hálendinu. Miðlanir náðu því strax hárri stöðu auk þess sem grunnvatnsstaða hækkaði. Há grunnvatnsstaða hefur svo viðhaldið rennsli lindáa fram eftir sumri.

Í lok júlí var kominn verulegur kraftur í jökulárnar og nokkuð víst að öll miðlunarlón muni fyllast í sumar.  Hálslón stendur nú í 621,22 m.y.s og einungis vantar tæpa fjóra metra á að það fyllist.  Gert er ráð fyrir að Hálslón fari á yfirfall í vikunni eftir verslunarmannahelgi.  Blöndulón stendur nú í rúmlega 477 m.y.s og vantar tæpa 80 cm á að það fyllist.  Gert er ráð fyrir að það fyllist um miðjan ágúst. Þórisvatn er nánast fullt og vegna framkvæmda við Búðarháls verður það ekki fyllt meira.

midlun_010812

Sækja mynd við frétt

Fréttasafn Prenta