Frétt

Landsvirkjun Power og Verkís undirrita ráðgjafasamning í Georgíu

17. ágúst 2012

Landsvirkjun Power, dótturfyrirtæki Landsvirkjunar og Verkís, undirrituðu þann 1. júní 2012 samning um verkfræðiráðgjöf við georgíska fyrirtækið Machakhela HPP 1 LLC. Fyrirtækin urðu hlutskörpust í útboði á verkefninu sem snýst um byggingu tveggja 20–25 MW vatnsaflsvirkjana í Georgíu. 

Samningurinn kveður á um framkvæmd vettvangsrannsókna, gerð verkhönnunarskýrslu með arðsemisgreiningu og að því loknu gerð útboðshönnunar og útboðsgagna fyrir framkvæmdir.  Verkefnið felur einnig í sér gerð allra vinnuteikninga fyrir byggingarvirki og yfirferð teikninga fyrir vél- og rafbúnað.

Virkjanirnar tvær verða staðsettar í ánni Machakhelistskali í sjálfstjórnarhéraðinu Adjar í suðvesturhluta Georgíu, nálægt landamærum Tyrklands. Virkjanirnar tvær munu verða svipaðar að gerð. Í þeim báðum verða inntaksstíflur úr steinsteypu, sandskolunarvirki og fiskistigar, aðrennslisgöng, inntak fyrir þverár, þrýstijöfnunarvirki, þrýstigöng, stöðvarhús á yfirborði með öllum tilheyrandi vél- og rafbúnaði, frárennslisskurður, tengivirki og háspennulínur til að tengjast orkuflutningskerfinu.

Landsvirkjun Power og Verkís hafa einnig gert undirráðgjafasamning við georgíska verkfræðifyrirtækið Peri LLC sem mun sjá um rannsóknarvinnu á verkstað, sem unnin verður af georgísku fyrirtækjunum Geoengineering og Geographic.  Einnig mun Peri LLC annast umsjón með hönnunarvinnu fyrirtækisins Georgian Water Power, sem annast mun stóran hluta vinnuteikninga.

Verkefninu á að ljúka fyrir árslok 2015

 

stadsetning-verkefna-LVP-i-Georgiu

Myndin sýnir staðsetningu verkefna sem Landsvirkjun Power hefur unnið að í Georgíu á síðustu árum

 

Fréttasafn Prenta