Frétt

Rúmlega 300 manns unnu að byggingu Búðarhálsvirkjunar í sumar

5. september 2012

Vinna í fullum gangi

Vinna við virkjunina er í fullum gangi  en rúmlega 300 manns störfuðu við framkvæmdina í sumar.

Stöðvarhúsið er nú uppsteypt og undirbúningur að því að setja dúk á þakið stendur yfir. Inntakið er að fullu uppsteypt en verið er að steypa stoðveggi og vængveggi til hliðar við inntakið. Uppsetning á þrýstivatnspípum er í fullum gangi og nú er búið að koma fyrir 7 einingum af 20, sem saman mynda fallpípurnar.

Framkvæmdir við Sporðöldustíflu ganga mjög vel en norðvesturhluti stíflunnar er nú kominn í um 15 metra hæð og unnið er á fullu við að þétta  berglög undir suðvesturhluta stíflunnar.  Framvinda í jarðgangagerðinni hefur verið hægari en áætlanir gerðu ráð fyrir en þó er ekki gert ráð fyrir að það valdi töfum á gangsetningu virkjunarinnar.  Afköst í jarðgangagreftri hafa verið að aukast og í síðustu viku náðist að grafa samanlagt 93 metra frá báðum endum sem er það næst mesta sem náðst hefur á einni viku hingað til.

 

Heildarársverk  600-700 yfir framkvæmdartímann
Gert er ráð fyrir að um 200-250 manns muni starfa á svæðinu að jafnaði í vetur.  Heildarársverk sem skapast vegna byggingar Búðarhálsvirkjunar yfir allan framkvæmdartímann eru á milli 600 og 700.

Áætlað er að Búðarhálsvirkjun byrji að afhenda orku í árslok 2013 en áætlað afl virkjunarinnar verður um 95 MW og orkugeta allt að 585 GWst á ári.

Með Búðarhálsvirkjun verður búið að fullnýta fall frá Þórisvatni niður fyrir Sultartanga sem er í samræmi við það hlutverk fyrirtækisins að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

 

BUD_fallpipur

 

 BUD_stifla

Fréttasafn Prenta