Frétt

Góð viðbrögð við auglýsingu um heimildarmynd

10. febrúar 2003

Stjórn Framleiðendafélagsins SÍK hefur valið Guðmund Kristjánsson, einn stjórnarmann félagsins, til að vera fulltrúa þess sem aðstoðar Landsvirkjun við úrvinnslu umsókna og val á kvikmyndagerðarmanni/fyrirtæki við gerð heimildarmyndar um Kárahnjúkavirkjun. Eins og áður hefur komið fram hefur fulltrúi félagsins stöðu ráðgjafa en valið fer fram á ábyrgð Landsvirkjunar. Landsvirkjun óskaði að eigin frumkvæði eftir að þessi háttur yrði hafður á vegna góðrar reynslu af svipuðu fyrirkomulagi í samkeppnum um gerð listaverka. Hugmyndin er að þetta stuðli að fagmennsku og jafnræði umsækjenda.

Fjallað hefur verið um verkefnið á kvikmyndavefnum asgrimur.is

Nokkrar fyrirspurnir hafa borist varðandi kvikmyndagerðina og hefur helst verið spurt um þessi atriði:

Krafan um Digital Betacam
Nokkuð hefur verið spurt um  hvers vegna Digtal Betacam sé valið og þá hvort önnur formöt komi ekki til greina. Af hálfu Landsvirkjunar er hugsunin að gera háar gæðakröfur og önnur formöt sambærileg að gæðum við Digital Betacam eru ásættanleg ef þau uppfylla jafn vel þarfir fyrir efni í sjónvarp og á vef eins og lýst er í auglýsingunni.

Digital Betacam er nefnt með tilliti til þess að þetta verkefni stendur í 4-5 ár og ástæða þótti til að gera miklar tæknilegar kröfur í ljósi þess að framþróun er hröð á þessu tæknisviði eins og öðrum.  Benda má á að Landsvirkjun lét kvikmynda byggingu Búrfellsvirkjunar á sínum tíma (1966-1970) og var það gert með 35 mm filmu.  Í dag er það mikill fengur að menn hafi verið svo stórhuga.

Hvernig staðið er að kvikmyndatökunni
Spurningin um hvernig menn hyggjast standa að kvikmyndatökunni vísar einkum til þess að Kárahnjúkar eru fjarri byggð og helstu þéttbýliskjörnum.  Sumir  kvikmyndagerðarmenn gætu hugsanlega búið það nálægt að þeir  geti gert út heimanað frá sér keyrandi.  Aðrir yrðu að fljúga, enn aðrir gætu haft hugmyndir um að búa á staðnum í einhverjum skorpum en láta síðan líða lengra á milli þess að þeir koma til að taka myndir.  Við erum fyrst og fremst að sækjast eftir hugmyndum manna um  þetta verklag. Þá skiptir máli að vita hvort menn  ætla að sinna þessu í ,,hjáverkum”, þ.e. hvernig menn sjá fyrir sér að þetta samræmist öðrum hlutum sem þeir eru að gera.

Fullgert efni - efnistök
Fyrirspurn kom um hvort við værum að leita eftir kvikmyndatöku og að síðan ynnum við eða létum vinna úr því.  Svo er ekki.  Við viljum að sá sem hlýtur verkið fullvinni efni með texta/hljóði eftir því sem við á.  Í þessu sambandi má nefna  vangaveltur sem komið hafa fram um efnistök, skal byggja á sögumanni, viðtölum, þul eða lýsa atburðum myndrænt?  Þetta er alveg opið og hlýtur að ráðast af sýn kvikmyndgerðarmannsins á verkefnið.

Aðkoma Framleiðendafélagsins SÍK
Landsvirkjun hefur beðið stjórnfélagsins að  leggja til „trúnaðarmann“/ráðgjafa fyrirtækinu til fulltingis við úrvinnslu á umsóknum og endanlegt val á kvikmyndagerðarmanni/fyrirtæki.  Ósk okkar er að það sé fagmaður sem nýtur trausts.  Vonir standa til að nafn hans liggi fyrir snemma í vikunni 9. til 14. febrúar þannig að umsækjendur viti hver hann er áður en umsóknarfrestur líður út.  Aðkoma félagsins breytir því ekki að valið á umsækjendum verður á ábyrgð Landsvirkjunar.

Val á umsækjendum
Val á 5-7 umsækjendum  mun byggjast á mati á þeim 5 atriðum sem talin eru upp í auglýsingunni.  Í framhaldinu  hyggst Landsvirkjun bjóða þeim saman á upplýsingafund um Kárahnjúkavirkjun og til að ræða og ná sameiginlegum skilningi um framhaldið við endanlegt val á þeim sem hlýtur verkið.  Leitað verður leiða til að meta efnistök og kostnað óháð hvort öðru og vega það síðan saman.

Fréttasafn Prenta