Frétt

Skrifað undir samninga við Alcoa

17. mars 2003

Ráðherrarnir Geir H. Haarde og Valgerður Sverrisdóttir skrifuðu undir fyrir hönd íslenska ríkisins, Alain J.P. Belda forstjóri og B. Michael Baltzell, framkvæmdastjóri Alcoa á Íslandi, fyrir hönd Alcoa, Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður og Friðrik Sophusson forstjóri fyrir hönd Landsvirkjunar og Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri fyrir hönd Fjarðabyggðar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar.

Friðrik Sophusson, Alain Belda, Michael Baltzell

 Friðrik Sophusson og Alcoamenn. Frá vinstri Alain Belda, Friðrik Sophusson og Michael Baltzell.

Stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, sagði í ávarpi við athöfnina að kostnaður fyrirtækisins vegna virkjunarinnar og tengdra framkvæmda myndi nema um 100 milljörðum króna. Hann kvaðst koma til Reyðarfjarðar beint frá Bandaríkjunum, úr heimsókn í höfuðstöðvar og álver Alcoa. Ferðin vestur og samskiptin við Alcoamenn í samningaferlinu hefðu sannfært sig um að Alcoa væri góður samstarfsaðili.

Alain J.P. Belda, forstjóri Alcoa, lýsti einnig mikilli ánægju með þennan áfanga og gat þess að fyrirtækið myndi verja að jafnaði einni milljón dollara á dag í fjögur ár í álversverkefnið við Reyðarfjörð. ,,Það er svo ykkar að sjá til þess að sem mest af þessum fjármunum verði eftir hér hjá ykkur,” sagði forstjórinn í ávarpi sínu.

 Valgerður Sverrisdóttir, Garðar Ingvarsson, Bernt Reitan

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra,
Garðar Ingvarsson, fjárfestingastofu
orkusviði og Bernt Reitan frá Alcoa.

Eftir samkomuna á Reyðarfirði og kaffisamsæti í grunnskólanum og Félagsheimilinu, var haldið út með firði að Hrauni þar sem álverið á að rísa. Þar afhjúpuðu Belda forstjóri og Smári Geirsson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, skilti sem Alcoa hafði komið fyrir við þjóðveginn. Þetta skilti er fyrsta ,,framkvæmd” Alcoa á Íslandi en það sem á eftir kemur verður öllu stærra í sniðum.

Þegar dagur var að kvöldi kominn fóru gestir til Egilsstaða og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra efndi að skilnaði til móttöku í flugstöðinni. Landsvirkjun afhenti þar Alcoamönnum táknrænar styttur gjöf og listgripirnir voru að sjálfsögðu úr áli. Belda forstjóri þakkaði fyrir sig og sína og sagði að þessi dagur á Íslandi yrði sér eftirminnilegur.

Handaband að lokinni undirritun samninga Mannfjöldi fyrir utan íþróttahúsið á Reyðarfirði
Friðrik Sophusson skipulagði á augabragði hvernig unnt væri að handsala samningana fljótt og auðveldlega að undirskrift lokinni. Mannfjöldi utan við íþróttahúsið á Reyðarfirði
Samningsaðilar við upplýsingaskilti Mannfjöldi í íþróttahúsinu á Reyðarfirði
Samningsaðilar og bandaríski sendiherrann á Íslandi við upplýsingaskilti sem komið hefur verið fyrir á Hrauni, lóðinni þar sem álverið rís. Mannfjöldi í íþróttahúsinu. Þarna komu saman yfir þúsund manns og fylgdust með undirskriftaathöfninni.
Alain Belda, Jake Siewert, Michael Balzell  
Alain Belda, forstjóri Alcoa, þakkar Landsvirkjun fyrir álstyttur sem fyrirtækið færði fulltrúum fyrirtækisins á Egilsstaðaflugvelli skömmu fyrir brottför Belda á einkaþotu sinni til New York. Að baki forstjóranum er Jake Siewert, blaðafulltrúi Alcoa, og Baltzell, framkvæmdastjóri Alcoa á Íslandi t.v.  


Fréttasafn Prenta