Frétt

Tillaga að matsáætlun Bjarnarflagsvirkjunar

26. maí 2003

Ákvarðanir um áfangastækkanir virkjunarinnar ráðast af viðbrögðum jarðhitakerfisins við orkuvinnslunni og áhrifum fyrri áfanga á umhverfið. Orkugeta hvers áfanga er áætluð 160-320 GWh á ári, samsvarandi 8.100 klukkustunda rekstrartíma á fullu afli. Auk virkjunarinnar er fyrirhugað að leggja 132 kV háspennulínu, Bjarnarflagslínu 1, frá Bjarnarflagsstöð að Kröflustöð til að tengja virkjunina raforkuflutningskerfi Landsvirkjunar. Þrír staðsetningarkostir fyrir stöðvarhús og önnur mannvirki virkjunarinnar verða skoðaðir og bornir saman í matsskýrslunni.

Nokkrar mismunandi útfærslur eru á legu háspennulínu út frá staðsetningarkostum virkjunar og verða þær bornar saman í matsskýrslu. Líklegt er að háspennulínan verði að
hluta loftlína og að hluta jarðstrengur.

Í tillögu að matsáætlun sem hér er lögð fram er fyrirhugaðri framkvæmd lýst í stuttu
máli og farið yfir þá þætti sem lögð verður áhersla á í matsskýrslu. Einnig er fjallað
um rannsóknir sem gerðar hafa verið eða eru fyrirhugaðar til viðbótar þeim sem áður
hafa verið gerðar.

Allir geta kynnt sé tillöguna og lagt fram athugasemdir. Hægt er að óska eftir eintökum af tillögunni hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166 í Reykjavík. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 6. júní 2003 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. Þar fást ennfremur nánari upplýsingar um mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun hefur leitað umsagnar Skútustaðahrepps, Ferðamálaráðs Íslands, Fornleifaverndar ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, iðnaða- og viðskiptaráðuneytisins, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar og veiðimálastjóra.

Stefnt er að því að ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun muni liggja fyrir 20. júní 2003.

Fréttasafn Prenta