Frétt

Hækkun stíflu í Laxá

25. júní 2003
Hækkun stíflu í Laxá

Tölvugerð mynd sem sýnir umfang fyrirhugaðs lóns.

Landsvirkjun áformar að hækka núverandi stíflu efst í Laxárgljúfri og mynda lítið inntakslón til að koma í veg fyrir erfiðleika við rekstur Laxárstöðva. Stefnt er að hækkun stíflunnar um 10-12 m og verður stærð inntakslóns 0,25–0,34 km2.

Í drögum að tillögu að matsáætlun sem hér er lögð fram er fyrirhugaðri hækkun stíflunnar lýst og fjallað um erfiðleika við rekstur stöðvanna. Jafnframt verður fjallað um rannsóknir sem unnar verða í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Í Laxá er mikill sandburður sem veldur óeðlilega miklu sliti á vatnsvélum. Í miklum umhleypingum að vetri til myndast einnig ís- og krapastíflur við inntakið með þeim afleiðingum að rennsli um Laxárstöðvar minnkar. Slíkt ástand getur oft varað dögum saman og skapað óvissu um afhendingu raforku á Húsavík og í nærsveitum.

Til þess að stemma stigu við þessu vandamáli hefur Landsvirkjun gert áætlun um að hækka núverandi stíflu efst í Laxárgljúfri. Með nýrri stíflu myndast lítið inntakslón ofan hennar. Sandur og grjót sem Laxá ber með sér, sem nú fer í gegnum stöðvarnar og skemmir vélarnar, félli til botns í lóninu. Jafnframt kæmi lónið í veg fyrir alvarlegar ístruflanir þar sem vatnið yrði þá tekið af botni lónsins en ekki af yfirborði eins og nú er gert.

Almenningi gefst kostur á að gera athugasemdir við þessi drög að tillögu að matsáætlun. Senda má tölvupóst til Landsvirkjunar á netfangið landsvirkjun hjá lv.is. Einnig er hægt að senda athugasemdir til Landsvirkjunar, merkt Laxárstöðvar – Hækkun stíflu og myndun inntakslóns, Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, 103 Reykjavík fyrir 11. júlí 2003.

Hækkun stíflu og myndun inntakslóns (2,5 MB)

Fréttasafn Prenta