Frétt

Unnið að aðskilnaði flutningssviðs frá Landsvirkjun

7. júlí 2003

Nokkur breyting varð á orkumálum þegar ný raforkulög tóku gildi 1. júlí. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðum laganna sem gilda til 1. júlí 2004 er flutningskerfi Landsvirkjunar, sem flytur raforkuna frá orkuverum til kaupenda orkunnar, skilgreint sem meginflutningskerfi landsins.

Í samræmi við nýju raforkulögin hefur starfsemi flutningssviðs Landsvirkjunar verið aðskilin bókhalds- og stjórnunarlega frá annarri starfsemi Landsvirkjunar og mun sérstök þriggja manna framkvæmdastjórn sem stjórn Landsvirkjunar skipar annast stjórnun flutningsstarfseminnar á meðan bráðabirgðaákvæðin eru í gildi.

Framkvæmdastjóri flutningssviðs mun fara með formennsku í framkvæmdastjórninni á gildistíma bráðabirgðaákvæðis, en reiknað er með því að nefnd á vegum ráðherra ljúki umfjöllum um flutningskafla raforkulaganna fyrir næstkomandi áramót og að tillögurnar komi til framkvæmda 1. júlí 2004. Eftir þann tíma er líklegt að flutningsfyrirtæki verði stofnað, en fram að þeim tíma verður flutningsstarfsemin rekin sem hluti af Landsvirkjun með þeim aðskilnaði sem áður var getið um.

Orkustofnun hefur samþykkt bráðabirgðagjaldskrá fyrir flutningskerfið sem mun gilda til 1. október 2003, en þá verður endurskoðuð gjaldskrá birt eftir að Orkustofnun hefur haft nægjanlegt svigrúm til að yfirfara forsendur hennar. Flutningssvið hefur því sjálfstæðar tekjur frá 1. júlí.

Flutningssvið hefur gert samninga við önnur svið Landsvirkjunar um kaup á þjónustu þannig að breytingar hvað nánasta starfsumhverfi varðar verða ekki miklar í byrjun. Mikilvægustu breytingarnar eru þær að sjálfstæði flutningssviðs verður meira en áður enda er verið að taka fyrstu skrefin í átt að nýju rekstrarumhverfi þar sem væntanlegt flutningsfyrirtæki mun leika stórt og mikilvægt hlutverk.

Einu virkjanirnar sem tengdar eru flutningskerfinu á þessum tímapunkti eru virkjanir orkusviðs Landsvirkjunar og er því ekki reiknað með að aðrir greiði fyrir flutning um kerfið. Öðrum rekstraraðilum er þó heimilt á bráðabirgðatímanum að tengjast flutningskerfinu.

 

Fréttasafn Prenta