Frétt

Skipulagsstofnun fellst á fyrirhugaðar virkjanir við Urriðafoss og Núp

20. ágúst 2003

Skilyrðin sem tengjast fyrirhuguðum virkjunum eru meðal annars þau að framkvæmdaraðili endurheimti votlendi á Suðurlandi sem er a.m.k. til jafns að flatarmáli og það votlendi sem raskast eða verður fyrir áhrifum. Einnig skal framkvæmdaraðili græða upp öll haugsvæði vegna breytinga á farvegi ofan lóns.

Þá skal framkvæmdaraðili vakta öldurof og eyðingu gróðurs á ströndum lóns í 10 ár eftir að það verður tekið í notkun og hafi samráð við sveitarstjórnir, Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnun um mótvægisaðgerðir verði þeirra þörf.

Einnig segir í úrskurðarorðum Skipulagsstofnunar að framkvæmdaraðili skuli fara að tillögum Fornleifaverndar ríkisins um mótvægisaðgerðir vegna áhrifa á hvern og einn fundarstað fornleifa. Framkvæmdaraðili þarf að standa fyrir könnun á fornleifum á áhrifasvæði vega, slóða, vinnubúða og háspennulínu áður en framkvæmdir hefjast í samráði við Fornleifavernd ríkisins og fara að þeim tillögum að mótvægisaðgerðum sem stofnunin kann að gera vegna áhrifa á fornleifar á þessum svæðum.

Samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 má kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra. Kærufrestur er til 24. september 2003.

 

Fréttasafn Prenta