Frétt

Frestun Norðlingaölduveitu

5. september 2003

Áætlun um byggingu veitunnar hefur miðast við að afhenda megi orku til Norðuráls fyrir lok ársins 2005 og að verkinu ljúki áður en framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers á Reyðarfirði nái hámarki.  Nú er ljóst að það takmark næst ekki en umhverfismat, skipulagsmál og öflun nauðsynlegra leyfa til framkvæmdarinnar hefur tekið lengri tíma en búist var við.

Samstarf hefur verið milli Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um orkusölu til stækkunar Norðuráls.  Á næstu vikum verður kannað hvort Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja nái að fullnægja orkuþörf Norðuráls svo ekki þurfi að slá stækkun álversins á frest.

Norðurál framleiðir nú 90 þúsund tonn af áli á ári.  Áætlað hefur verið að stækka álverið í tveimur áföngum sem nema 150 þúsund tonnum samtals, 90 þúsund tonn verði gangsett í árslok 2005 en 60 þúsund tonn til viðbótar þremur til fjórum árum síðar.  Landsvirkjun mun vinna áfram að undirbúningi Norðlingaölduveitu en orkunnar frá henni verður væntanlega þörf vegna síðari áfanga stækkunar Norðuráls eða annarra verkefna sem upp kunna að koma.

 

Fréttasafn Prenta