Frétt

Frestun Norðlingaölduveitu - Útskýringar Landsvirkjunar

15. september 2003

Úrskurður setts umhverfisráðherra hinn 30. jan. sl. fólst í því að færa Norðlingaöldulón út úr friðlandi Þjórsárvera þannig að það hafi ekki langvarandi áhrif á friðlandið.  Útfærsla Landsvirkjunar byggir á þessum úrskurði, sem mikil sátt var um, en meirihluti hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps vill ganga skemur.  Neðri mörk friðlandsins eru við tæplega 569 metra yfir sjávarmáli.  Samkvæmt útfærslu Landsvirkjunar yrði vatnsyfirborð Norðlingaöldulóns 566 m að sumarlagi, en 568 m y.s. að vetrarlagi.

Rekstraráhætta vegna ísatruflana
Umhverfisstofnun og Ásahreppur, sem Landsvirkjun átti samkvæmt úrskurðinum að hafa samráð við ásamt Skeiða- og Gnúpverjahreppi, féllust á útfærslu Landsvirkjunar og álíta hana uppfylla skilyrði ráðherra í úrskurðinum.  Það olli þess vegna vonbrigðum þegar hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti með fjórum atkvæðum gegn þremur að ganga skemmur en heimilt er skv. úrskurðinum og fallast eingöngu á 566 m y.s. allt árið.

Forsendur samþykktar meirihluta hreppsnefndar byggir sumpart á misskilningi t.d. varðandi aurskolun og sumpart á því að ekki lágu fyrir upplýsingar um rekstrarerfiðleika vegna ísatruflana, en þær liggja nú fyrir.  Samkvæmt nýjum niðurstöðum sérfræðinga fylgir mun meiri rekstraráhætta lónshæð við 566 m en 568 m að vetrarlagi.

Margfalt minna lón
Samkvæmt samkomulaginu sem gert var um friðlýsingu Þjórsárvera fyrir rúmum tveimur áratugum var heimilað að gera lón í allt að 581 m y.s. að uppfylltum tilteknum skilyrðum.  Í umhverfismati Skipulagsstofnunar í ágúst 2002 var fallist á lón í 578 m y.s. eða 575 m y.s. með viðeigandi mótvægisaðgerðum.

Í meðfylgjandi töflu er sýndur munur á flatarmáli og miðlunarrými mismunandi útfærslna Norðlingaöldulóns:

m y.s.

Flatarmál í km²

Nýtanleg rýmd í Gl

      566

          3,4

               3

      568

          7,1

             18

      575

        29,0

           118

      578

        43,0

           199

      581

        62,0

           350

Eins og sjá má, á töflunni er nú verið að tala um margfalt minna lón en rætt var um í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í hreppnum, þegar m.a. var kosið um þetta mál.  Þá lá fyrir ósk um mat á umhverfisáhrifum á lónhæðum 575-581 m y.s.

Tímaþröng
Undirbúningur Norðlingaöldulóns hefur tekið langan tíma og miklum fjármunum hefur verið varið til rannsókna á svæðinu síðustu áratugi.  Landsvirkjun hóf undirbúning umhverfismats á árinu 1999 en lokaúrskurður var kveðinn upp á þessu ári.  Vinna við umhverfismatið tók um fjögur ár og þar af tók það settan umhverfisráðherra 4 mánuði að fjalla um málið.  Mikil sátt var talin um úrskurðinn og hefur Landsvirkjun byggt útfærslu sína og samráð á honum.

Málið er nú í tímaþröng sem skýrist af því að stefnt var að því í samkomulagi við Norðurál að freista þess að ljúka framkvæmdum við orkuver og álver Norðuráls áður en hámark verður í framkvæmdum við Kárahnjúka og í Reyðarfirði árið 2006 og 2007.  Framkvæmdatími er langur ekki síst vegna þess að útboð þurfa að fara fram.  Til þess að framkvæmdir geti gengið snurðulaust fyrir sig þurfa sveitarstjórnir að veita framkvæmdaleyfi.  Í ljósi þess ágreinings sem enn ríkir um útfærslu veitunnar telur stjórn Landsvirkjunar óráðlegt að stefna að byggingu lónsins á fyrirhuguðum tíma.

Áfram unnið að lausn
Landsvirkjun mun að sjálfsögðu vinna áfram að þessu verkefni og freista þess að ná víðtækari sátt um það enda er Norðlingaöldulón með tilheyrandi framkvæmdum mikilvæg fyrir raforkuframleiðslu fyrirtækisins í framtíðinni.  Norðlingaalda er veita, sem bætir nýtingu þriggja virkjana í Tungnaá og er m.a. forsenda þess að Búðarhálsvirkjun verði hagkvæm.

Áður en stjórn Landsvirkjunar ákvað að fresta framkvæmdum við Norðlingaöldu var málið rætt við Norðurál og samstarfsaðila Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja.  Gert hafði verið ráð fyrir að veiturnar legðu til u.þ.b. helming þess rafmagns, sem þarf til fyrir hluta stækkunar Norðuráls.  Á næstu vikum ræðst hvort Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja geta útvegað alla orkuna á tilsettum tíma.

Friðrik Sophusson

 
 

Fréttasafn Prenta