Frétt

Blöndustöð fær ISO 9001 vottun

16. september 2003

Friðrik Sophusson, forstjóri, tók í gær á móti vottorði til staðfestingar því að gæðakerfi Blöndustöðvar hafi staðist úttekt Vottunar hf. og að kerfið sé byggt upp og rekið samkvæmt kröfum ÍST EN ISO 9001:2000 alþjóðagæðastaðalsins.

Athöfnin fór fram í Blöndustöð og framseldi Friðrik vottorðið að því búnu í hendur Ránar Jónsdóttur, stöðvarstjóra. Vottorðið tekur til framleiðslu og afhendingar raforku ásamt með viðhaldi framleiðslueininga í Blöndu. Það var Kjartan Kárason, framkvæmdastjóri Vottunar hf., sem afhenti Landsvirkjun vottorðið.

Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri, hefur stýrt innleiðingarferlinu í heild en verkið er unnið undir leiðsögn Gunnars H. Guðmundssonar, ráðgjafa. Einar Mathiesen stýrði þeim hluta verksins sem snéri að orkusviði en þau gæðaskjöl sem taka á rekstri stöðvarinnar eru unnin af starfsmönnum í Blöndu en þeir hafa vakað vel yfir því verki frá upphafi. Að auki hafa fjölmargir starfsmenn hjá öðrum sviðum Landsvirkjunar lagt hönd á plóginn því gæðakerfi teygir sig nú þegar í ýmis horn starfseminnar.

Vottun Blöndustöðvar er fyrsti áfanginn í gæðavottun Landsvirkjunar. Stefnt er að því að votta aflstöðvarnar eina af annarri á næstunni og að vottun orkusviðs verði að fullu lokið á næsta ári. Þá verður öll vinnsla og sala LV á rafmagni vottuð samkvæmt ISO 9000 staðlinum.

Með vottuðu gæðakerfi verður rekstur og viðhald aflstöðva Landsvirkjunar eins markviss frekast er unnt.

Starfsmönnum Blöndustöðvar er óskað til hamingju með áfangann og öllum þátttakendum í verkefninu þakkað framlagið.

 

Fréttasafn Prenta