Frétt

Sogslína tvö 50 ára

20. október 2003

Að lagningu línunnar stóðu starfsmenn Rafmagnsveitu Reykjavíkur, sem svo hét á þeim tíma, og reistu þeir einnig stálturnana. Starfsmenn Byggingafélagsins Þórs í Hafnarfirði sáu um gerð undirstaða undir turnana.

Sogslína 2 - línumenn í mastri

Línumenn Rafmagnsveitu Reykjavíkur
að störfum í Sogslínu 2

Sogslína 2 er fyrsta stálturnalínan sem byggð var hér á landi og tengir saman Sogsvirkjanirnar þrjár Írafossstöð, Ljósafossstöð og Steingrímsstöð við Reykjavík. Nánar tiltekið liggur hún frá Írafossstöð og að aðveitustöð Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdal. Línubyggingin tengdist byggingu Írafossstöðvar sem tekin var í notkun á sama tíma. Áður hafði Ljósafossstöð verið byggð og 66 kV tréstauralína frá henni um Mosfellsheiði til Reykjavíkur. Sú lína er nú aflögð. Sogslína 2 liggur aftur á móti um Grafningsháls frá Írafossi, suður fyrir Hveragerði í Ölfusi, upp á Hellisheiði sunnanvert í Kömbum og yfir heiðina um Hellisskarð við Kolviðarhól og síðan sem leið liggur um Geitháls norðan við Rauðavatn og nú síðasta spölinn í jarðkapli að aðveitustöð Orkuveitunnar í Elliðaárdal.

Sogslína 2 - verkamenn

Hluti þeirra starfsmanna sem stóðu að
framkvæmdum við Sogslínu 2

Hafist var handa við sprengingar í febrúar 1953 og var unnið sleitulaust við verkið allt til verkloka 16. október 1953. Þegar mest var unnu um 200 manns við línubygginguna. Alls er línan 50,9 km löng og eru í henni 199 turnar og allir úr stáli sem fyrr segir. Leiðarar eru stálálsvírar alls um 19 mm í þvermál. Hæstu turnar eru um 21 metri á hæð en meðalhæð þeirra um 16 metrar.

Kostnaður við línuna var talinn vera um 19 milljónir króna á þágildandi verðlagi eða um 600 milljónir króna á núgildandi verðlagi.

Þeir Matthías Matthíasson rafvirkjameistari og Jakob Guðjohnsen yfirverkfræðingur og síðar rafveitustjóri sáu um yfirverkstjórn af hálfu Rafveitunnar.

Fréttasafn Prenta