Frétt

50 ára afmæli Írafossstöðvar

21. október 2003
Unnið við samsetningu véla í Írafossstöð

Vélasalurinn í Írafossstöð sumarið 1953.
Unnið við niðursetningu á vélum.

Írafossstöð var hönnuð og teiknuð af verkfræðingnum A. B. Berdal í Ósló sem var ráðunautur við Ljósafossstöð. Stöðvarhúsið er neðanjarðar með 650 m. löngum jarðgöngum fyrir frárennslisvatnið. Mesta vatnsnotkun í stöðinni er 150 m3/sek og knýr vatnið sem rennur um vatnsvegi stöðvarinnar 3 vélasamstæður.

Virkjunin var byggð á árunum 1950-1953 og var samtímis lögð ný háspennulína sem enn í dag flytur alla orkuna úr Soginu til Reykjavíkur. Írafossvirkjun nýtir 38 m fallhæð í neðri Sogsfossunum Írafossi og Kistufossi ásamt flúðum fyrir ofan fossana. Stíflan við Írafossvirkjun hækkaði vatnsborðið um 20 metra og er vatnsborðið nú jafnhátt útfallinu við Ljósafossstöðina.


Við gangsetningu Írafossstöðvar

Við gangsetningu Írafossstöðvar. Við ræðupúltið
eru frá vinstri Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri,
Ingólfur Ágústsson, rafmagnsverkfræðingur
og herra Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands.

Það voru fyrirtækin E. Pihl og Sön (Kaupmannahöfn) og Grävmaskiner og Östlunds Byggnads a.b. (Stokkhólmi) sem sáu um byggingavinnu, en rafalar og rafbúnaður til virkjunarinnar og tengivirkis var frá Westinghouse (New York). Hverflarnir af Francis gerð komu frá Tampella í Finnlandi. Kostnaðurinn við byggingu stöðvarinnar nam um 170 milljónum króna, sem jafngildir rúmum fimm milljörðum króna í dag.

Vígsla stöðvarinnar fór fram þann 16. október með hátíðlegri athöfn að viðstöddu fjölmenni. Formaður stjórnar Sogsvirkjunar flutti ávarp og síðan gangsetti forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson fyrri vélasamstæðuna.

Þegar mest lét störfuðu um 300 manns við byggingu stöðvarinnar en eftir að Sogsvirkjanirnar þrjár voru allar komnar í rekstur upp úr 1960 voru rúmlega 100 manns þar með fasta búsetu. Þeim fækkaði jafnt og þétt til ársins 2000, en nú starfa 16 manns við Sogsvirkjanir, en aðeins tveir þeirra búa á svæðinu.

Írafossstöð árið 2003

Írafossstöð árið 2003. Um áramótin
2002-2003 lauk umfangsmiklum
endurbótum á öllum Sogsstöðvunum.

Nú hafa verið gerðar miklar endurbætur á öllum þremur Sogsstöðvunum. Við Írafossvirkjun voru til dæmis endurnýjaðar inntakslokur og steypt mannvirki voru styrkt. Þá var gert við aðrennslisgöng, rafbúnaður endurnýjaður og vélar gerðar upp.

Fréttasafn Prenta