Frétt

50 ár frá gangsetningu Laxár II

29. október 2003

Laxárstöð II stendur við bæinn Brúar og er með henni nýtt fallið í neðri hluta Laxár. Megintilgangurinn með virkjuninni var að sjá Akureyri fyrir rafmagni. Áður en Laxá II kom til sögunnar hafði Laxá I framleitt 4,5 MW, en sú stöð þjónaði bæði Akureyri og nærliggjandi sveitum. Í Laxárstöð II er ein vatnsvél og er afl hennar 9 MW.

Bygging stöðvarhúss Laxár II

Frá byggingu Laxárstöðvar II. Stöðvarhúsið risið upp úr vinnupöllunum

Unnið við bráðabirgðastíflu í Laxá

Unnið við bráðabirgðastíflu sem veitir ánni
í annan farveg

Árið 1950 gerðist ríkið meðeigandi Akureyrarbæjar í Laxárvirkjun þegar ráðist var í byggingu Laxárstöðvar II. Framkvæmdirnar við virkjunina hófust árið 1950. Rafmagnsveitur ríkisins sáu um stjórn verksins og um uppsetningu véla og rafbúnaðar. Eiríkur Briem, síðar forstjóri Landsvirkjunar var í forsvari fyrir þeim framkvæmdum.

Stöðvarhús Laxár II teiknaði Sigvaldi Thordarson og um verkfræðilega hönnun sá Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen. Um byggingu stöðvarhússins sá byggingafélagið Stoð hf. Þrátt fyrir nokkrar tafir sem urðu á verkinu gengu framkvæmdir vel.

Eftir gangsetningu Laxár I kom fljótlega í ljós að sandburður, ísmyndun og ójafnt rennsli truflaði nokkuð starfsemi stöðvarinnar. Til þess að jafna rennsli árinnar var gripið til þess ráðs að stífla útfall Laxár úr Mývatni. Árið 1947 var Haganeskvísl stífluð og samhliða byggingu Laxár II voru Geirastaða- og Miðkvíslar stíflaðar. Í ljós kom að þessar aðgerðir voru mjög til bóta því rennslið úr Mývatni varð stöðugra.

Eftir sem áður ber Laxá með sér mikinn sand og hefur viðhald vatnshjóla ætíð verið mikið í stöðvunum vegna slits.

Laxárvirkjun gegndi lykilhlutverki í rafvæðingu Norðurlands og Laxárstöðvar sjá stórum hluta þess fyrir rafmagni. Árið 1983 var Laxárvirkjun sameinuð Landsvirkjun.

 

Fréttasafn Prenta