Frétt

Framtíð orkumála heimsins

12. nóvember 2003

Sjálfbær þróun: Jafnvægi framboðs og eftirspurnar

Gerald Doucet, Alþjóðaorkuráðinu

Markmið síðustu ára í stefnumótun og viðskiptum hefur verið að koma upp sjálfbærum orkukerfum

Glötunar- og bölsýnisspár Ríó-ráðstefnunnar áratug fyrr voru fjarri áherslum Heimsráðstefnunnar um sjálfbæra þróun sem haldin var í Suður-Afríku 2002. Meginviðfangsefnið var aðgangur að orkumarkaði sem þáttur í heimsátaki gegn fátækt.

Ef sjálfbærni er skoðuð frá viðskiptalegum sjónarhóli þá eru helstu stefnuyfirlýsingar síðasta árs í orkumálum, bæði hjá Bandaríkjunum og Evrópusambandinu, framboðsmiðaðar, þótt Evrópusambandið taki einnig á stjórnun eftirspurnar. Í báðum tilfellum er gefið til kynna að um kreppu sé að ræða þótt raunin sé önnur, menn standa einfaldlega frammi fyrir valkostum. Sem dæmi um kreppu í orkuframboði má taka Indland, orkutap í 90.000 dreifikerfi landsins er 51%, bæði af tæknilegum orsökum og öðrum og þörf er fyrir 25.000 MW aukningu í forgangsorku fyrir árið 2005. Sem dæmi um kreppu í orkueftirspurn má taka Afríku. Á síðustu 10 árum hefur verið rætt um opnun hagkerfa þar til þess að laða að nýja fjárfesta, en á sama tíma hefur hlutfall íbúa með lágmarksaðgang að raforku fallið úr 12% í 8%.

Ódýrasta, hreinlegasta og öruggasta leiðin til að ná settum markmiðum um sjálfbærni er að nota minni orku. Hagkvæmni orkunotkunar verður að aukast meira á næstu 20 árum en hún hefur gert á síðustu 20. Þetta er auðvitað viðfangsefni sem bæði snýr að framboði og eftirspurn.

Ofuráhersla á það að markaðsumbætur eigi að leiða til lægra orkuverðs og muni gera það, er augljóslega villandi og spillir fyrir samningum um markaðsumbætur, nema einnig séu tekin með í reikninginn áreiðanleiki og gæði þjónustu. Reyndar mun lægra orkuverð einungis skila sér í hagkerfum þar sem offramboð er á orkumarkaði og nægilega mörg fyrirtæki með í leiknum til þess að um sæmilega samkeppni sé að ræða. Í mörgum þróunarríkjum á þetta sannarlega ekki við. Einhver mun þurfa að greiða fyrir bættan aðgang og meiri áreiðanleika og á endanum verður það neytandinn. Sjálfbær orkukerfi eru ekki ókeypis. Þegar um það er að ræða að gera íbúum fátækustu landanna kleift að kaupa þá orku sem í boði er, er hlutverk niðurgreiðslna undirstöðuatriði.

Markmið um endurnýjanlega orku

Þótt þess sé vænst að heildarnotkun endurnýjanlegrar orku vaxi hratt á næstu árum, býst Alþjóðaorkuráðið (WEC) ekki við því að hlutfall hennar af allri orkunotkun heimsins aukist svo nokkru nemi. Þegar til skamms, heldur lengri tíma er litið, muni endurnýjanleg orka, unnin með nútímasniði, áfram verða lítill þáttur í orkuframboði hinna iðnvæddu þjóða.

Alþjóðaorkuráðinu þykir alþjóðleg markmið um aukið hlutfall endurnýjanlegrar orku ekki réttlætanleg, jafnvel þótt þau byggi á vísbendingum um hagkvæmni þeirra. Markmið bundin löndum eða svæðum geta reynst gagnleg, ef tilgangur og tilkostnaður liggja fyrir. Ef megintilgangur slíkra markmiða er að fást við mengun eða hnattræna hlýnun, þarf hins vegar að meta gaumgæfilega efnahagslegar forsendur ýmissa annarra valkosta. Í mörgum tilfellum getur það að bæta orkunýtingu þeirra kerfa sem fyrir eru eða láta þau endast betur hjálpað til við að ná sömu markmiðum með lægri tilkostnaði. Ef megintilgangurinn er hins vegar að bæta áreiðanleika orkukerfa og aðgang að þeim, þarf að hafa í huga að þegar endurnýjanleg orka, sem er fyrst og fremst nýtt sem orkugjafi á heimaslóð, er skoðuð, þarf að meta hverja einstaka orkuvinnsluframkvæmd sérstaklega, vegna þess að hagkvæmni hennar og raunkostnaður ræðst af staðbundnum aðstæðum.

Drifkraftar orkumarkaðar fram til ársins 2050

Alþjóðaorkuráðið er nú að gagngera úttekt á drifkröftum orkumarkaðar fram til ársins 2050. Fram að þessu hefur sú vinna staðfest að þrír þættir ráða vexti, þ.e. fólksfjöldi, hagvöxtur og grundvallarorkuþarfir. Hins vegar dregur smám saman úr áhrifum þessara þátta þegar líður að árinu 2050. Miklar lýðfræðilegar breytingar verða yfirstaðnar. Mannfjöldi heimsins virðist líklegur til að ná 8 milljarða hámarki um árið 2040 og fara svo að dala upp úr því. Í þróuðum samfélögum er orkuþörf ekki lengur bundin efnahagslegum framförum og sama tilhneiging gæti farið að sjást í leiðandi hagkerfum þróunarríkjanna. Líklegt er að meðalhagvöxtur í heiminum verði undir 2%, a.m.k. næstu 20 árin, í stað 3,5%, sem er núverandi meðaltal.

Á heimsvísu mun þróun orkumála væntanlega einkennast af tröppugangi, þar sem á eftir hverju tímabili með lágu orkuverði fylgir veruleg verðhækkun. Ómögulegt er að segja fyrir um hvenær þessi áföll dynja yfir, eða hver áhrif þeirra munu verða, s.s. hægari hagvöxtur, breytingar á orkufrekri starfsemi, innbyrðis hlutfalli orkugjafa o.fl., en dagar línulegra framreikninga gætu verið taldir.

Hugleiðingar um framboð á orku

Fram að árinu 1973 hafði dregið jafnt og þétt úr mikilvægi kola (sem frum orkulind), en fyrsta olíukreppan, sem skall yfir á því ári, breytti þessu og kolin hafa haldið markaðshlutdeild sinni eftir það. Alþjóðaorkuráðið reiknar með því að undanhald kolanna hefjist á ný, þrátt fyrir nýlegar, jákvæðar breytingar í átt til betri orkunýtingar og minni mengunar, nema til komi gjörbylting í tækni þannig að mögulegt verði að byggja útblásturslaus kolaorkuver, sem séu samkeppnisfær í verði. Þó muni kolaframleiðsla halda áfram að aukast fram á 4. áratug 21. aldar.

Alþjóðaorkuráðið trúir því ekki að sá skerfur sem jarðgas hefur náð til sín af orkuframboði heimsins muni haldast óbreyttur til 2050. Ef ekki kemur til þess að Bandaríkin leyfi vinnslu gass á friðuðum svæðum eða heimsmarkaðsverð á jarðgasi hækki verulega, mun ekkert geta hindrað að framleiðsla jarðgaslinda í Norður-Ameríku og á öðrum lykilsvæðum nái hámarki og fari síðan að dala. Hvort hægt er að skera á tengslin milli verðs á jarðgasi og olíu og hvort hægt verður að ná einhverri stjórn á hviklyndi markaða með þessar afurðir til lengri tíma eru þættir sem Alþjóðaorkuráðið er nú að rannsaka.

Óhefðbundnar gastegundir gætu reynst stöðug orkuuppspretta til einhverra ára, en magn þeirra er ekki slíkt að þær hægi á samdrætti gasvinnslu í Bandaríkjunum eða, mögulega, í Kanada. Verðið er einnig hærra en á jarðgasi. Alþjóðaorkuráðið er nú að meta framtíðarmöguleika gasvinnslu annars staðar í heiminum.

Ef djúpsjávarvinnsla er ekki talin með, þá náði olíuframleiðsla ríkja utan OPEC hámarki árið 1997. OPEC-ríkin geta staðið frammi fyrir ófullnægjanlegri eftirspurn eftir olíu, bæði frá eigin markaði og innflytjendum olíu, sem bendir til þess sú þróun sem verið hefur á raunverði olíu, sem þegar til lengri tíma er litið, hefur verið að síga, muni stöðvast.

Búist er við því að vatnsorkan, sem er í fararbroddi endurnýjanlegra orkulinda, haldi núverandi hlutdeild í heildarorkuframboðinu, þar til hún fer að dvína um 2030-2040. Hlutdeild orkugjafa utan markaðar (mestmegnis lífmassa) mun aukast hægt, þar til hún fer að dala í kringum árið 2030. Nýjar tegundir endurnýjanlegrar orku, þ.m.t. markaðseldsneyti úr lífmassa, munu taka óvænt stökk, sérstaklega hvað varðar blendingsorkukerfi tengd rafmagni frá veitum. Engu að síður munu þær aðeins leggja lítinn skerf til heildarorkuframboðs í heiminum fram til 2030 og trúlega lengur, vegna þess hve framleiðsla þeirra er dreifð og framboðið slitrótt.

Alþjóðaorkuráðið hefur dregið þá ályktun að fram til 2030 og líklega lengur muni heimurinn sem áður að mestu reiða sig á jarðefnaeldsneyti og stórar vatnsaflsvirkjanir. Hins vegar er blind trú á að þessar orkulindir fullnægi vaxandi kröfum um raforku ósjálfbær hugsun. Af þeim sökum hefur Alþjóðaorkuráðið lagt til að öllum orkuvalkostum sé haldið opnum, þ.m.t. öruggari, hreinni og smærri kjarnorkuverum.

Reyndar mun vaxandi vitund um rökréttar forsendur efnahagsmála, öryggi/áreiðanleika og umhverfisáhrif styðja endurfæðingu kjarnorkunnar, þegar að því kemur að endurnýja kola- og kjarnorkuver nútímans upp úr árinu 2010. Jafnvel í heimi vetnisorku væri kjarnorkan, sem nánast er óþrjótandi, einn af grundvallarþáttunum, á eftir jarðgasi, sem er takmörkuð auðlind. En til þess að fullur árangur náist við vinnslu kjarnorku þarf hún að öðlast almenna viðurkenningu samfélagsins. Það þýðir að stjórnvöld eiga ekki aðeins að upplýsa almenning um geislavirk úrgangsefni, heldur einnig koltvísýring og önnur útblástursefni. Þeir raforkunotendur sem eitthvert val hafa, verða að fara að bera saman áhættuþætti hinna ýmsu framleiðsluaðferða. Stjórnmálamenn ættu að hafa frumkvæði að umræðu, aðstoða þau ríki sem eiga varasama kjarnakljúfa og tryggja sanngjarnar leikreglur á orkumarkaðinum. Einnig þarf kjarnorkuiðnaðurinn að taka meiri ábyrgð á sér sjálfur, verða sjálfstæðari, gagnsærri og sýna fram á að hann geti bjargað sér á frjálsum markaði.

Hugleiðingar um eftirspurn orku

Stefnumörkun um bætta orkunýtingu virðist ekki draga úr orkunotkun, ef ekkert er gert til að breyta smásöluverði orkunnar, beint eða óbeint. Í löndum þar sem verðmyndun er skekkt (t.d. með svæðisbundnum niðurgreiðslum til húshitunar) virðist stöðugleiki orkunotkunar til lengri tíma sýna að stefnumið um betri orkunýtingu hafa ekki lagfært skekkjuna.

Greining Alþjóðaorkuráðsins á eftirspurnarlínum leiðir í ljós að þegar miðað er við fast tekju- og hagvaxtarstig, er verð langsamlega mikilvægasti þátturinn í því að skapa neyslumynstur. Ef raunverð á orku breytist, tekur það hagræðið af bættri orkunýtingu tvö ár að eyða skarðinu sem kom í eftirspurnina og koma henni aftur á fyrri línu. Þetta gefur til kynna að ný tækni og búnaður sem kemur á markað vegna hærra orkuverðs leiða af sér meiri efnahagslega velferð, fremur en að draga úr eftirspurn orku.

Góður vilji dugar ekki til

Bæði ógnanir og tækifæri skapast þegar reynt er að stilla saman orkueftirspurn og framboð. Það er ógnun við fátækustu löndin og þá sem ekki hafa aðgang að nútíma orkukerfum, vegna þess að verðhækkun sem spáð er að leiði af slíkri samstillingu, getur slegið enn á frest aðgangi þeirra að orku á viðráðanlegu verði. Tækifærin liggja í því að víða mun þurfa að endurskoða orkustefnur sem byggja á ódýrri, en ósjálfbærri orku og hagsmunir ýmissa öflugra þrýstihópa verða að láta undan þegar settar verða reglur um orkumál sem renna stoðum undir samkeppni, mælingar og samhæfingu og halda vel utan um niðurgreiðslur.

Það er kaldhæðnislegt að í heimi þar sem orka er dýrari en nú, myndi umhverfi í þróuðum ríkjum njóta góðs af, meðan baráttan við að útrýma fátækt í þróunarlöndunum yrði erfiðari. Verði þessi raunin munu hnattræn áhrif aðgerða í orkumálum áfram verða þungbær þrátt fyrir góðan vilja.

Höfundurinn

Gerald Doucet er aðalritari Alþjóðaorkuráðsins. Hann hóf þar störf í september 1998 eftir að hafa í fjögur ár verið formaður og framkvæmdastjóri Sambands kanadískra gasframleiðenda. Þar á undan vann hann við stjórnsýslu, í samtökum iðnrekenda og við alþjóðasamskipti.
Doucet hóf feril sinn hjá ríkisstjórn Kanada með því að sinna störfum af efnahagslegum og stefnumarkandi toga. Hann gerðist síðan fyrsti varaforseti Smásöluverslunarráðs Kanada frá 1982-1987. Frá 1988 til 1992 starfaði hann sem aðalviðskiptafulltrúi Ontario-ríkis í Evrópu og var hvatamaður að stofnun Þróunarsamvinnustofnunar Kanada, fyrsti framkvæmdastjóri hennar og formaður frá 1992-1994.

Nánari upplýsingar
Alþjóðaorkuráðið
Sími: +44 20 7734 5996 Fax: +44 20 7734 5926
Tölvupóstur: info hjá worldenergy.org
Vefsíða: www.worldenergy.org

Fréttasafn Prenta