Frétt

Strandmyndun við Blöndulón

21. nóvember 2003

Borgþór hélt erindið miðvikudaginn 19. nóvember 2003. Þar kom fram að Blöndulón var myndað sumarið 1991 er vatni var safnað í það í fyrsta sinn til miðlunar fyrir Blönduvirkjun. Árið 1996 var yfirfall hækkað, jókst þá flatarmál lónsins úr 41 ferkílómetra í 57 ferkílómetra og náði það fullri stærð. Lónið liggur í tæplega 500 m hæð yfir sjó. Frá árinu 1993 hefur verið unnið að rannsóknum fyrir Landsvirkjun á grunnvatnsstöðu, gróðurbreytingum og strandmyndun við lónið. Í erindinu var greint frá helstu niðurstöðum þeirra.

Rof í bakka við Blöndulón

Bakki sem myndast hefur við öldurof á hallandi strönd við norðanvert Blöndulón,
september 2002.
Ljósm. Borgþór Magnússon

Sandfok við Blöndulón

Sandur sem fokið hefur upp úr fjöru í vík við norðanvert Blöndulón, júlí 2000. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Vatnsborð Blöndulóns sveiflast að meðaltali um 9 metra yfir árið. Vatnsborðið hefur mikil áhrif á grunnvatnsstöðu í þurrlendi upp af lóninu, einkum þar sem land er flatt en úr áhrifunum dregur mjög með vaxandi landhalla. Víðast hvar við lónið gætir blotnunar á innan við 100 metra breiðu belti.

Þar sem land blotnar mest upp hverfa eindregnar þurrlendistegundir úr gróðri en þolnari tegundir þrauka áfram. Eftir stækkun lónsins árið 1996 hefur dregið úr bakvatnsáhrifum á gróður vegna þess hve seint lónið fyllist að sumri. Landnám votlendistegunda hefur verið hægfara og setja þær hvergi svip á gróður þar sem land hefur blotnað. Tegundum hefur því fækkað og þekja þeirra minnkað þar sem land hefur forblotnað.

Strandmyndun ræðst af landhalla og hversu opin ströndin er móti lóninu. Þar sem flatlent er hefur strandlína lítið mótast enn sem komið er, en þar sem brekkur eru upp frá lóninu hefur hraðfara öldurof orðið, strönd gengið inn og bakkar myndast. Í víkum við norðanvert lónið hefur orðið vart við sand í fjörum á nokkrum stöðum og fok á land.

Rannsóknirnar hafa varpað nokkru ljósi á framvindu sem verður í kjölfar þess að miðlunarlón er myndað á hálendi landsins og ættu niðurstöður þeirra að koma að notum þegar meta skal umhverfisáhrif fyrirhugðaðra lóna á nýjum virkjunarsvæðum.

Viðhengi:
Grunnvatn, gróður og strandmyndun við Blöndulón

 

Fréttasafn Prenta