Frétt

Þýskt fyrirtæki annast stálfóðrun fallganga Kárahnjúkavirkjunar

21. nóvember 2003

Fjögur tilboð bárust í verkið, öll nokkuð undir kostnaðaráætlun Landsvirkjunar, og eftir ítarlega skoðun var ákveðið að ganga til samninga við þýska fyrirtækið.

Undirritun verksamnings KAR 36
Frá undirrituninni í dag. Á myndinni eru sitjandi frá vinstri: Manfred Singer, framkvæmdastjóri
DSD-Noell Hydromechanical Equipment, Rüdiger Schidzig, framkvæmdastjóri
DSD Stahlbau GmbH og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar.

Samninginn undirrituðu Friðrik Sophusson forstjóri fyrir hönd Landsvirkjunar og Rüdiger Schidzig, framkvæmdastjóri DSD Sthalbau GmbH og Manfred Singer, framkvæmdastjóri DSD-Noell Hydromechanical Equipment, fyrir hönd þýska fyrirtækisins.

Verkið (KAR-36) felst í deilihönnun, framleiðslu og uppsetningu á stálfóðringum í tvenn lóðrétt fallgöng við stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Fallgöngin verða rúmlega 400 metra há frá inntaksmannvirki við enda aðrennslisganga efst inni í Valþjófsstaðafjalli niður að stöðinni. Stöðvarhúsið verður um kílómetra inni í fjallinu skammt innan við Valþjófsstað. Stálrörin verða 3,4 metrar að innanmáli og hluti af verkinu er að steypa milli stálfóðringa og bergsins í göngunum.  Neðan við inntaksvirkið verða tveir spjaldlokar í göngunum og eru þeir hluti samningsins, ásamt rennslisskynjurum í göngin. Einnig eru stálfóðringar og spjaldloki í aðrennslisgöngum frá Jökulsá í Fljótsdal, þar sem þau göng mæta aðrennslisgöngunum frá Jökulsá á Dal undir Fljótsdalsheiði við Axará, hluti af samningnum

Heildar stálmagn sem ætlað er að fari í þetta er um 3.500 tonn. Framleiðsla búnaðarins hefst nú í vetur en uppsetning bíður til ársins 2005. Verklok eru í árslok 2006.
 
Afl Kárahnjúkavirkjunar verður samtals 690 MW og á orkuframleiðsla að hefjast í apríl árið 2007.

 

Fréttasafn Prenta