Frétt

Herferð á hendur Ómari Ragnarssyni

12. desember 2003

--------------------------------

Í framhaldi af birtingu dæmalausrar greinar Susan De Muth í Guardian-Weekend og umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum um meinta herferð á hendur Ómari Ragnarssyni vegna umfjöllunar hans um Kárahnjúkavirkjun hefi ég ítrekað verið spurður að því hvort Landsvirkjun eða starfsmenn hennar séu þar að verki. Ég hef eðlilega svarað því neitandi enda er mér kunnugt um að Landsvirkjun hefur ætíð greitt götu Ómars Ragnarssonar sem fréttamanns eftir bestu getu. Til að eyða öllum vafa og firra starfsmenn Landsvirkjunar óþægindum óskaði ég eftir því við Ómar að hann staðfesti þetta. Það gerði hann um hæl með eftirfarandi hætti:

Mér er ljúft að svara því til að Landsvirkjun og sérfræðingar hennar hafa ævinlega greitt götu mína þegar ég hef leitað eftir upplýsingum til hennar og nú síðast í sumar hélt ég erindi og sýndi myndir í Ljósafossstöð á vegum Landsvirkjunar og er þakklátur fyrir það. Ég hef aldrei gefið neitt í skyn sem réttlætir það að draga Landsvirkjun inn í þessa umræðu um mín verk á þann hátt að hún setji steina í götu mína sem fréttamanns.

Þvert á móti. Ævinlega hef ég fengið viðtöl við þá, sem best hafa kunnað skil á þeim málum, sem ég hef þurft að fjalla um.

Um samstarf mitt við Landsvirkjun hef ég því ekkert nema gott að segja, enda vinna hjá þessu fyrirtæki kurteisir og svaragóðir kunnáttumenn. Tveir af helstu verkfræðingum, sem ég hef leitað til og þekkja vel til virkjanamála, eru fornvinir mínir úr Menntaskólanum í Reykjavík og samskipti mín við þá hafa, eins og ævinlega áður verið á eina lund, vinsamleg og jákvæð. Ég sé reyndar ekki að í nefndri grein í Guardian-Weekend sé talað um herferð Landsvirkjunar á hendur mér, en mér er samt ljúft að gefa ofangreind svör fyrst þú leitar eftir þeim.

Mér dettur ekki í hug að rekja mjög mikinn þrýsting, sem ég hef orðið fyrir um að fjalla ekki um virkjanamálin, til Landsvirkjunar, enda hefur þessi þrýstingur komið úr ýmsum áttum. Allt orkar tvímælis þá gert er og það á líka við um mín verk. Skoðanir eru skiptar og það er eðlilegt. Ég hef því tekið því með ró þótt margir hafi sitthvað við mín verk að athuga. Í hita leiksins hafa einstakir menn látið mig heyra það að vel færi á því að mér yrði rutt úr vegi af vettvangi fjölmiðlunar. Þeir menn tengjast á engan hátt Landsvirkjun og ég myndi telja það ósæmilegt, ef slíkt yrði gefið í skyn.

Með bestu kveðjum, Ómar Ragnarsson

Með þessu bréfi tekur Ómar Ragnarsson af allan vafa um samskipti sín við Landsvirkjun. Eru honum hér með þökkuð snöfurmannleg viðbrögð.

Friðrik Sophusson

Fréttasafn Prenta