Frétt

Samið vegna stækkunar Norðuráls

18. desember 2003

Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavikur hafa farið þess á leit við Landsvirkjun að hún selji rafmagn til þeirra á árinu 2007 vegna viðhalds í nýjum virkjunum Hitaveitunnar og Orkuveitunnar á Reykjanesi og á Hellisheiði. Virkjanirnar verða byggðar til þess að sjá stækkun Norðuráls fyrir rafmagni. Í dag undirrituðu fyrirtækin samkomulag um fyrrnefnda rafmagnssölu.

Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun hafa einnig náð samkomulagi um að Landsvirkjun kaupi rafmagn frá vél 4 á Nesajvöllum frá 1. nóvember 2005 og þar til Norðurál hefur uppkeyrslu stækkunar álverksmiðjunnar á Grundartanga, sem áætlað er að verði í febrúar 2006. Landsvirkjun mun geyma þetta rafmagn í formi vatns í lónum við vatnsaflstöðvar sínar veturinn 2005-06. Þar nýtist vel sá eiginleiki lóna vatnsaflsvirkjana að varðveita orku frá ómiðluðum orkuverum, orku sem annars myndi glatast. Landsvirkjun á nú í viðræðum við Norðurál um sölu á þessu rafmagni til stækkunar Norðuráls á árinu 2006, meðan lokið verður við byggingu virkjana Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja á Hellisheiði og Reykjanesi. Munu þau viðskipti gera Norðuráli kleift að hefja rekstur stækkunar álverksmiðjunnar á Grundartanga mun fyrr á árinu 2006 en ella.

Gott samstarf hefur verið milli orkufyrirtækja landsins á undanförnum árum við uppbyggingu orkufreks iðnaðar og er þessi samningur dæmi um það hvernig vatnsafl og jarðvarmi henta vel saman í raforkuvinnslu og bæta hvort annað upp.

Fréttasafn Prenta