Frétt

Hlutfall erlends vinnuafls við Kárahnjúka

16. janúar 2004

ASÍ hefur bent á það í fjölmiðlum á undanförnum dögum að þótt hagvöxtur verði mikill á árinu þá telji ASÍ að stóriðjuframkvæmdir skili sér í mun minna mæli inn í íslenskan vinnumarkað en gert var ráð fyrir í upphafi.  Haft er eftir hagfræðingi ASÍ í Ríkisútvarpinu 15. janúar sl. að gert hafi verið ráð fyrir upphaflega að hlutfall erlendra starfsmanna fyrir austan yrði um 20 af hundraði. Raunin sé aftur á móti að þeir eru um 70-80% vinnuaflsins.

Það hefur legið fyrir í tæpt ár að erlent vinnuafl yrði fjölmennt við Kárahnjúka. Í því sambandi má minna á ræðu Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar, á samráðsfundi fyrirtækisins 4. apríl 2003. Þar segir hann m.a. um framkvæmdirnar við Kárahnjúka:

Það er að sjálfsögðu ekki hægt á þessari stundu að fullyrða um hvernig verktakar munu haga mannahaldi sínu en líklegt er að þeir leitist við að finna jafnvægi í ráðningum erlends og innlends vinnuafls.  Sem dæmi um þetta má nefna að ítalska verktakafyrirtækið Impregilo, sem mun byggja fyrir um 50% af framkvæmdakostnaði Kárahnjúkavirkjunar, gerir ráð fyrir að um 60-70% af sínu vinnuafli komi erlendis frá.  Með hliðsjón af þessu tel ég líklegt að hlutur erlends vinnuafls við þessar miklu framkvæmdir verði nokkru meiri en áætlað hefur verið.

Talið er líklegt að fyrir framkvæmdirnar í heild yfir framkvæmdatímann verði Íslendingar um 50% vinnuaflsins við Kárahnjúkavirkjun og flutningsvirki þeim tengd.


 

Fréttasafn Prenta