Frétt

Dómur Hæstaréttar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar Landsvirkjun í hag

22. janúar 2004

Tildrög málsins eru þau að um mitt ár 2000 hóf Landsvirkjun undirbúning mats á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og var matsskýrsla kynnt vorið 2001, mun ítarlegar en lög gera ráð fyrir, m.a. á sérstakri heimasíðu. Auk lögbundinna umsagna og sérstakra sérfræðiskýrslna bárust margar athugasemdir og ábendingar frá almenningi.

Hinn 1. ágúst 2001 kvað Skipulagsstofnun upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í úrskurðinum var lagst gegn framkvæmdinni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar.

Landsvirkjun kærði úrskurðinn til umhverfisráðherra 4. september 2001. Var hér um að ræða umfangsmestu kæru til endurskoðunar á stjórnsýsluákvörðun sem lögð hefur verið fram hingað til hérlendis enda reyndi á endurskoðun margra þátta í úrskurði Skipulagsstofnunar er vörðuðu m.a. grundvallaratriði um túlkun laga um mat á umhverfisáhrifum. Landsvirkjun gerði þá kröfu að umhverfisráðherra tæki nýja ákvörðun í málinu og féllist á framkvæmdina, með eða án skilyrða.

Umhverfisráðherra ákvað að kynna stjórnsýslukæru Landsvirkjunar og gefa almenningi kost á því að gera athugasemdir umfram lagaskyldu. Hinn 20. desember 2001 kvað umhverfisráðherra upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og féllst á framkvæmdina. Ráðherrann setti þó 20 skilyrði fyrir framkvæmdinni sem drógu nokkuð úr umfangi hennar.

Náttúruverndarsamtök Íslands og þrír einstaklingar höfðu mál fyrir héraðsdómi gegn íslenska ríkinu og Landsvirkjun til ógildingar úrskurði umhverfisráðherra. Fór Þórður Bogason hdl., Lögmönnum Höfðabakka, með málið fyrir hönd Landsvirkjunar.

Héraðsdómur Reykjavíkur, sem skipaður var þremur héraðsdómurum, kvað upp dóm 21. maí 2003. Hafnaði dómurinn öllum kröfum stefnenda um ógildingu úrskurðarins. Ekki voru viðurkennd þau sjónarmið að umhverfisráðherra hafi borið að vísa málinu aftur til meðferðar Skipulagsstofnunar heldur taldi héraðsdómur að henni hafi verið heimilt að taka málið til efnisumfjöllunar og kveða upp úrskurð í því m.a. á grundvelli þeirra gagna sem fylgdu kæru Landsvirkjunar og síðar bárust frá framkvæmdaraðila sem og grundvelli þeirra sérfræðigagna, athugasemda og umsagna sem umhverfisráðuneytið aflaði á kærustigi, enda þótti eðli framkvæmdarinnar ekki hafa breyst frá upphaflegri matsskýrslu Landsvirkjunar. Héraðsdómur hafnaði einnig þeim sjónarmiðum málshefjenda að umhverfisráðherra hefði haft ólögmæt endaskipti á málsmeðferðinni með því að túlka lög nr. 106/2000 með þeim hætti að mat á arðsemi framkvæmdar og þjóðhagslegum áhrifum ætti ekki undir mat á umhverfisáhrifum og að matsskýrsla Landsvirkjunar hafi þar með verið fallin um sjálfa sig. Þá var því einnig hafnað að breytingar á framkvæmdaáformum og mótvægisaðgerðum hafi ekki verið útfærðar með fullnægjandi hætti og hafi kallað á sjálfstætt umhverfismat. Dómur héraðsdóms tók auk þess á fjölda annarra atriða og var að mati Landsvirkjunar afar vandaður og vel rökstuddur.

Stefnendur áfrýjuðu dómi héraðsdóms til Hæstaréttar. Flutti Hreinn Loftsson hrl., Lögmönnum Höfðabakka, málið fyrir hönd Landsvirkjunar. Í dómi sínum staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms og sýknaði íslenska ríkið og Landsvirkjun af öllum kröfum stefnenda. Með því hafa verið staðfest í öllum meginatriðum sjónarmið Landsvirkjunar um framkvæmd mats á umhverfisáhrifum. Jafnframt hefur verið staðfest í eitt skipti fyrir öll að mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar var unnið á lögmætan hátt enda var faglegra og vandaðra vinnubragða gætt í hvívetna af hálfu Landsvirkjunar.

 

Fréttasafn Prenta