Frétt

Landsvirkjun styrktaraðili Listahátíðar í Reykjavík 2004

3. febrúar 2004

Kórinn kemur fram við setningu Listahátíðar í Reykjavík í Þjóðminjasafninu 14. maí. Daginn eftir, eða 15 maí, verða svo þrennir tónleikar með kórnum; þeir fyrstu verða Hljómskálanum og síðan verða tvennir tónleikar í Hallgrímskirkju. Þeir fyrri hefjast kl. 17.00 en hinir verða miðnæturtónleikar kl. 23.00.

Djúpir flauelsbassar og silkimjúkir tenórar eru lýsingarorð sem gjarnarn eru notuð yfir kór St. Basil dómkirkjunnar sem kemur alla leið frá Moskvu á Listahátíð í Reykjavík 2004 og flytur okkur m.a. heimsþekkt rússnesk þjóðlög, miðaldatónlist og tónlist tónskálda rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sem var bönnuð af yfirvöldum þar í landi á tímum kommúnismans. Svo magnaður þykir flutningur kórsins að sagt var í Moskow News á dögunum að hverjum einasta gesti hefði vöknað um augu við að hlýða á söng St. Basil kórsins.

Kór St. Basil kirkjunnar er eitt best geymda leyndarmál Rússlands, enda hefur kórinn lítið farið út fyrir heimaland sitt nema þá helst til að ferðast til fylkja fyrrum Sovétríkjanna. Þó hafa allmargir hlýtt á kórinn í Noregi því á síðasta ári kom hann m.a. fram á Ólafsdögum í Niðarósi á kirkjulegri menningarhátíð. Á hátíðinni á sama tíma voru einnig Sigurrós og Hilmar Örn Hilmarsson að frumflytja Hrafnagaldur í Noregi.

Einstök radd- og hljómnotkun einkennir kórinn; allt frá þéttumog djúpum bössum til ljóðrænna tenóra en meðlimir kórsins eru allir langskólamenntaðir tónlistarmenn og einsöngvarar sem tekið hafa þá ákvörðun að helga líf sitt Rétttrúnaðarkirkjunni. Í kórnum er fyrrum ein vinsælasta poppstjarna Rússlands, sem sneri við blaðinu og lifir nú sem helgur maður. Einnig syngur ungur drengur með mikla og tæra sópranrödd jafnan einsöng með kórnum.

St. Basil dómkirkjan á Rauða torginu hefur löngum þótt fegurst allra kirkna og margir þekkja hana sem eitt af byggingartáknum gamla Rússlands, nánast sem eitt af undrum veraldar. En hún var lengi vel aðeins tákn því engin þjónusta var veitt þar á árunum1930 til 1991. Það var svo 14. október 1991 sem fyrsta messan var leyfð í St. Basil. Kom þá kórinn fram fullskapaður undir stjórn Sergei Krivobokov, sem enn er að og kemur því með kórnum til Íslands. Kórinn flytur sem áður sagði rússnesku þjóðlögin og ekki hvað síst söngva og sálma rétttrúnaðartónskáldanna, sem lágu jafn lengi óhreyfð í Sovétríkjunum og krikjan var bönnuð, en mörg þessara verka þykja himnesk smíð og dásamleg á að hlýða.

 

 Styrktarsamningur Landsvirkjunar við Listhahátíð 2004 undirritaður 

Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Listahátíðar og Friðrik Sophusson, framkvæmdastjóri Landsvirkjunar undirrita samstarfssamninginn.

 

 Kór St. Basil kirkjunnar í Moskvu 

Kór St. Basil dómkirkjunnar fyrir framan kirkjuna við Rauða torgið.

 

Fréttasafn Prenta