Frétt

Um hækkun stíflu í Laxá

11. febrúar 2004

Þar er bráðabirgðaákvæði sem heimilar Umhverfisstofnun að veita Landsvirkjun leyfi til að hækka stíflu við inntak Laxárstöðva 1 og 3 að undangengnu mati á umhverfisáhrifum og að tilskildu samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns. Þetta ákvæði er í frumvarpinu vegna þess að í viðræðum Landsvirkjunar og Umhverfisstofnunar kom fram að stofnunin taldi sér ekki heimilt að taka efnislega afstöðu til stífluhækkunar á grundvelli gildandi laga um verndun Mývatns og Laxár, en lögin koma í veg fyrir að fram fari mat á umhverfisáhrifum.

Þetta ákvæði brýtur ekki í bága við sáttargjörð heimamanna og þáverandi eigenda Laxárstöðva frá 1973 í kjölfar Laxárdeilunnar. Þar var kveðið á um að ekki yrði stofnað til frekari virkjana í Laxá nema til kæmi samþykki Landeigendafélags Laxár & Mývatns. Bráðabrigðaákvæðið í frumvarpinu nú áréttar þetta.

Þegar sáttagjörðin batt enda á Laxárdeiluna voru engin lög í landinu um mat á umhverfisáhrifum.  Þau lög hafa á undanförnum 10 árum sannað gildi sitt sem grundvöllur markvissra athugana á áhrifum framkvæmda á umhverfið og lýðræðislegrar og opinnar meðferðar og umræðu um áform af því tagi sem stífluhækkun í Laxá er.

horft til suðurs yfir fyrirhugaða stíflu og lónsstæði

Hækkun Laxárstíflu um 10 m og lóns í 118 m y.s. 
Horft til suðurs yfir stíflu og lónsstæði

Landsvirkjun hefur átt ágætt samstarf við heimamenn við Laxá frá því að fyrirtækið eignaðist stöðvarnar þar árið 1983. Ólíkt áformunum fyrri eigenda Laxárstöðva frá því um 1970 um 50 metra háa stíflu í Laxá þá hefur Landsvirkjun hreyft því við heimamenn að til að tryggja rekstraröryggi stöðvanna væri áhugavert að athuga möguleika á allt að 12 m hækkun inntaksstíflu fyrir þær stöðvar og endurbæta á þann hátt mannvirki frá 1939 sem eru alls ófullnægjandi. Vandinn er sá að sandur, grjót og krapi fer óhindrað í gegnum vélar Laxárstöðvar 3 vegna þess að vatn og ís hefur enga viðstöðu við inntak stöðvarinnar. Á 9. áratugnum þurfti Landsvirkjun að endurnýja hverfilhjól stöðvarinnar og nýja hjólið er nú þegar að verða ónýtt. Landsvirkjun stendur á næstu árum frammi fyrir því að ráðast í dýrar endurbætur á stöðinni og það er ekki talið borga sig nema gerðar verði ráðstafanir til að hefta sand og ísburð í gegnum stöðina.

Þetta hefur Landsvirkjun kynnt heimamönnum óformlega og fyrir liggur að meðal margra þeirra er skilningur á þessum vanda auk þess sem þeir hafa áhyggjur af skaðlegum áhrifum sandburðar á lífríki árinnar í Aðaldal, þ.m.t. laxagengd.

Nú hafa komið fram gagnrýnisraddir sem vilja ekki að mat á umhverfisáhrifum verði heimilað með breytingu á lögum um verndun Mývatns og Laxár.  Landsvirkjun sér ekki hvernig hægt er að komst að niðurstöðu um þetta mál öðruvísi en að búinn sé til farvegur fyrir athuganir á öllum hliðum málsins og vettvangur fyrir opna og lýðræðislega umræðu og ákvaðanatöku.  Til þess þarf að heimila mat á umhverfisáhrifum. Það breytir ekki því að bæði Umhverfisstofnun og Landeigendafélagið halda fullum rétti til að hafna hækkun stíflunnar á grundvelli laga um verndun Mývatns og Laxár og sáttagerðarinnar frá 1973.

Horft til norðurs yfir fyrirhugaða stíflu

Hækkun Laxárstíflu um 10 m og lóns í 118 m y.s. 
Horft til norðurs yfir stíflu og Laxárstöðvar.

Hagsmunir Landsvirkjunar snúast um að halda úti rekstri Laxárstöðva með viðunandi hætti.  Rannsóknir á vegum fyrirtækisins á hugsanlegum aðgerðum og áhrifum þeirra eru tilgangslausar ef fyrir liggur að mat á umhverfisáhrifum er óheimilt. Fyrir landeigendur við Laxá er mikilvægt að taka afstöðu til sandburðarins, að hann verði rannsakaður og hvort og hvernig æskilegt sé að grípa inn í til verndar lífríkinu. Fyrir stóran hluta Þingeyjarsýslna er örugg starfræksla Laxárstöðva mikið hagsmunamál með tilliti til þess að norðursýslan er ekki tengd byggðalínunni beint heldur Laxárstöðvum og síðan Akureyri um 50 ára gamla háspennulínu sem ekki veitir mikið öryggi.  Þá eru Laxárstöðvar mikilvægur atvinnuveitandi fyrir byggðarlagið.

Myndefni:
Lón í 118 m hæð
Lón í 120 m hæð 
Stífla í 118 m hæð 
Stífla í 120 m hæð
  

Fréttasafn Prenta