Frétt

2,4 milljarða króna verksamningur við Suðurverk

24. febrúar 2004

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks, undirrituðu samninginn um verkið, sem er hið stærsta sem Suðurverk hefur tekið að sér.

Suðurverk átti lægstu boð í báðar hliðarstíflur Kárahnjúkavirkjunar þegar tilboð voru opnuð skömmu fyrir jól. Fyrirtækið bauð 754 m.kr. í Sauðárdalsstíflu (52,6% af kostnaðaráætlun) og 1.664 m.kr. í Desjarárstíflu (61,4% af kostnaðaráætlun), samtals 2.418 m.kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Að sögn Guðmundar Ólafssonar, verðandi staðarstjóra Suðurverks við Kárahnjúka, er stefnt að því að hefjast handa eystra fljótlega eftir páska við að reisa vinnubúðir og undirbúa framkvæmdir. Síðan hæfist jarðvinna vegna Desjarárstíflu. Hann gerir ráð fyrir að allt að 130 starfsmenn Suðurverks verði á virkjunarsvæðinu í sumar, sumarið 2005 og sumarið 2006. Stíflugerðinni á að vera lokið haustið 2006.

Eftirfarandi kennitölur eru helstar um stíflurnar þrjár við Kárahnjúka, þ.e. þær tvær sem Suðurverk samdi um í dag og svo Kárahnjúkastíflu, sem Impregilo vinnur við að reisa:

  • Desjarárstífla verður allt að 60 m há og 1.100 m löng.
    Fyllingarefni 2,8 milljón m³.
  • Sauðárdalsstífla verður allt að 25 m há og 1.100 m löng.
    Fyllingarefni 1,5 milljón m³.
  • Kárahnjúkastífla verður allt að 193 m há og 730 m löng.
    Fyllingarefni 8,5 milljón m³.

Suðurverk er langt komið með gerð hafnargarðs á Vopnafirði og starfsmenn, sem þar eru, færa sig upp á hálendið með vorinu. Fyrirtækið vinnur einnig að gerð snjóflóðavarna á Siglufirði og á að ljúka því verki á næsta ári.

Leiðir Suðurverks og Landsvirkjunar hafa oft legið saman áður. Hafnfirska fyrirtækið vann til dæmis að stórum verkþáttum við Kvíslaveitur. Það gerði líka frárennslisskurð í Sultartangavirkjun í samvinnu við Arnarfellsmenn frá Akureyri, sem Suðurverksmenn hitta reyndar fyrir í vor norðan Vatnajökuls. Arnarfell hefur verið undirverktaki Impregilo við Kárahnjúka frá upphafi framkvæmdanna þar.

 

Fréttasafn Prenta