Frétt

Landsvirkjun og Laxá

1. mars 2004


Landsvirkjun og Laxá
Bjarni Bjarnason

Bjarni BjarnasonFrumvarp til breytinga á lögum frá árinu 1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjasýslu hefur nú verið lagt fram á Alþingi. Í frumvarpinu er bráðabirgðaákvæði sem kveður á um það að Umhverfisstofnun geti heimilað hækkun stíflu við inntak Laxárstöðva efst í Laxárgljúfri, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum og að fengnu samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns. Það eru því heimamenn sem hafa síðasta orðið um hækkun stíflu í Laxá.

Um Laxárstöðvar
Laxá í Suður-Þingeyjasýslu rennur úr Mývatni um Laxárdal til norðurs, gegnum Laxárgljúfur, niður í Aðaldal og þaðan til sjávar í Skjálfanda. Þrjár litlar vatnsaflsstöðvar eru í ánni, allar á sama blettinum þar sem Laxárgljúfur opnast út í Aðaldal. Stöðvarnar eru Laxá I sem er 5 MW að afli og var gangsett árið 1939, Laxá II, 9 MW gangsett 1953 og svo yngsta stöðin Laxá III sem er 13,5 MW og var hún gangsett árið 1973. Allar stöðvarnar voru byggðar af félaginu Laxárvirkjun sem í upphafi var í eigu Akureyrarbæjar en íslenska ríkið eignaðist hlut í félaginu árið 1950. Landsvirkjun tók við rekstri stöðvanna árið 1983 þegar rafmagnsvinnsla Akureyrarbæjar var sameinuð Landsvirkjun. Hatrömm deila stóð um byggingu Laxárvirkjunar III á árunum upp úr 1970. Þá var áformað að reisa 56 m háa stíflu í Laxárgljúfrum en lónið að baki henni hefði lagt allstóran hluta Laxárdals undir vatn. Deilunum lyktaði árið 1973 með samningi sem undirritaður var af Laxárvirkjun, Landeigendafélagi Laxár og Mývatns og forsætisráðherra. Í kjölfar deilunnar voru  lög sett á Alþingi árið 1974 um verndun Mývatns og Laxár.

Landsvirkjun átti engan þátt í Laxárdeilunni enda tengdist hún ekki Laxárvirkjun á þeim tíma eins og fyrr er getið. Það hefur hins vegar verið hlutverk Landsvirkjunar frá árinu 1983 að reka Laxárstöðvar. Það er álit starfsmanna Laxárstöðva að nábýli og samstarf við heimamenn hafi verið með ágætum þau 20 ár sem síðan eru liðin.

Rekstur Laxárstöðva
Laxárstöðvar eru hlutfallslega dýrastar í rekstri af stöðvum Landsvirkjunar og er vinnslukostnaður nær fimmfalt hærri í Laxárstöðvum en þar sem hann er lægstur. Laxárstöðvar eru farnar að eldast og fjárfesta þarf fyrir 700 til 1000 milljónir króna í búnaði þeirra á næstu árum til þess að viðhalda framleiðslugetunni og tryggja reksturinn til nokkurrar framtíðar. Hagnaður af rekstri Laxárstöðva er nú tæpar 10 milljónir króna á ári og hefur svo verið undangengin ár. Það er mat Landsvirkjunar að óbreyttur rekstur stöðvanna í Laxá réttlæti tæplega stór fjárútlát. Nauðsynlegt er því að fá niðurstöðu um þau skilyrði sem rekstri stöðvanna verða búin á næstu árum og áratugum áður en ákvörðun um frekari fjárfestingu er tekin. Vinnubrögð af þessum toga eru eðlilegur hluti af ábyrgum rekstri og geta á engan hátt talist hótanir í garð heimamanna eins og látið hefur verið í veðri vaka á síðum dagblaðanna að undanförnu. Rök Landsvirkjunar fyrir stífluhækkun eru einvörðungu rekstrarlegs eðlis. Landsvirkjun er hins vegar kunnugt um að sandburður í Laxá, bæði í efri hluta hennar í Laxárdal og neðan Laxárstöðva, í Aðaldal, er af mörgum talinn vera ánni til tjóns. Af þeirri ástæðu vill Landsvirkjun kanna það hvort rekstrarhagsmunir Laxárstöðva og hagsmunir landeigenda og veiðiréttarhafa við Laxá geti farið saman að því leyti að draga megi úr sandburði í ánni samhliða því sem rekstrarskilyrði stöðvanna verði bætt.

Hönnun Laxár III miðaðist við 56 m háa stíflu og var vatnsinntak stöðvarinnar sniðið að því. Stíflan var hins vegar aldrei reist og hefur inntakið staðið upp úr vatni frá því að stöðin var gangsett í stað þess að vera á nokkurra tuga metra dýpi í lóninu. Rekstrarvandinn felst í því að sandur, grjót og krapi fer óhindrað inn í vélar stöðvanna. Sandur og grjót valda sliti á vélum en ís og krapi rekstrartruflunum og framleiðslutapi. Að mati verkfræðiráðgjafa þyrfti að hækka inntaksstífluna um 10-12 metra til þess að losna endanlega við þessi vandamál.

Vegna óska sem upphaflega komu frá heimamönnum hefur Landsvirkjun látið kanna þann möguleika að botnfella ársandinn í lóninu ofan stíflunnar en með því yrði komið í veg fyrir sandslit vatnsvéla og jafnframt yrði Laxá í Aðaldal hlíft við sandinum. Fyllingartími lóns við 10 m stífluhækkun er áætlaður 15 ár en 30 ár við 12 m hækkun. Fjarlægja þyrfti sand úr lóninu að fyllingartíma liðnum og koma honum fyrir á viðunandi hátt. Átta metra stífluhækkun myndi leysa mesta rekstrarvandann að sandburðinum frátöldum en rýmið í slíku lóni er ónógt til að taka við sandinum og færi hann þá óheftur gegnum stöðina og í neðri hluta Laxár. Eldri hugmyndir um svipaða stífluhækkun og hér er til umræðu gerðu ekki ráð fyrir því að botnfella sandinn og fjarlægja hann og er hugmyndin ný að því leyti.

Því hefur verið fleygt að Landsvirkjun áformi að reisa fleiri virkjanir í Laxá og eigi þá ósk heitasta að leggja allan Laxárdal undir vatn enda sé það einn hagkvæmasti virkjunarkostur landsins. Skemmst er frá því að segja að engin slík áform eru uppi og væri Landsvirkjun ljúft að staðfesta það með hverjum þeim hætti sem heimamenn teldu fullnægjandi. Ósk um bætt rekstrarskilyrði við Laxárstöðvar snýr einvörðungu að því að tryggja rekstur þeirra eigna sem fyrir eru.

Aðrar hugmyndir að lausn
Frá því að Landsvirkjun kynnti hugmyndir sínar um 10-12 metra stífluhækkun og sandsöfnun í inntakslónið hefur andstaða margra heimamanna orðið ljós. Gagnrýnin hefur beinst bæði að stærð lóns við 10 og 12 metra hækkun og að sandsöfnuninni sem margir óttast að lýta muni dalinn og að erfitt verði að fjarlægja sandinn og farga honum með viðunandi hætti. Heimamenn hafa bent á þá lausn að hefta sandinn nærri upptökum hans í Kráká í Mývatnssveit eða neðar við Haganes, og safna honum í lón sem tæma mætti með einfaldari hætti en inntakslónið. Þannig mætti einnig hlífa efri hluta Laxár við sandi en heimamenn virðast almennt sammála um það að æskilegt sé að losna við sandinn úr ánni. Reynist þetta gerlegt væri vandkvæðalaust að miða hækkun stíflunnar við 8 metra, minnka þannig flatarmál lónsins og komast hjá sandsöfnun í dalnum.

Framangreindar hugmyndir voru ræddar á kynningarfundi Landsvirkjunar með stjórn Landeigendafélags Laxár og Mývatns 17. febrúar síðastliðinn. Landsvirkjun óskaði þá eftir því að Landeigendafélagið tilnefndi tvo fulltrúa sína til þess að fylgjast með athugun á framangreindum hugmyndum og vera til ráðuneytis um lausn sem sátt gæti náðst um.

Samstaða um lausn
Í lögum um verndun Mývatns og Laxár segir; “Breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna eru einnig óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra, enda komi til sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar.”

Verði fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði í frumvarpi umhverfisráðherra ekki að lögum eru Landsvirkjun allar bjargir bannaðar til úrbóta á rekstrarskilyrðum Laxárstöðva hafi þær í för með sér minnstu breytingu á vatnsborði eða rennsli Laxár. Langur vegur er þó frá að bráðabirgðaákvæðið eitt sér heimili stífluhækkun. Helstu forsendur þess að hækka megi stíflu og bæta inntaksskilyrði við Laxárstöðvar sýnast vera þær að:

  1. Bráðabirgðaákvæði frumvarpsins verði samþykkt.
  2. Lokið verði við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
  3. Landeigendafélag Laxár og Mývatns samþykki framkvæmdina á grundvelli mats á umhverfisáhrifum og að
  4. Umhverfisstofnun heimili framkvæmdina á grundvelli matsins og samþykkis Landeigendafélagsins.

Af þessu má ljóst vera að leið Landsvirkjunar að því marki að tryggja rekstrarskilyrði Laxárstöðva verði torsótt nema að víðtæk sátt náist um lausn á vandanum, enda eru það heimamenn sem hafa lokaorðið um stífluhækkun í Laxá en ekki Landsvirkjun.

 

Fréttasafn Prenta