Frétt

Skipulagsstofnun fellst á Bjarnarflagsvirkjun og Bjarnarflagslínu 1

2. mars 2004

Á grundvelli gagna Landsvirkjunar, umsagna, athugasemda og svara framkvæmdaraðila við þeim er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð 90 MWe jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi samkvæmt kostum A og B og bygging 132 kV Bjarnarflagslínu frá virkjuninni að Kröflustöð samkvæmt kostum Aa, Ab og B, Skútustaðahreppi, muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Þau skilyrði sem Skipulagsstofnun setur fram eru:

  1. Landsvirkjun standi fyrir rekstrareftirliti og vöktun sem fjallað er um í úrskurðinum. Þannig þarf m.a. að fylgjast með niðurdrætti og hitabreytingum í jarðhitakerfinu, suðu í bergi, minnkun rennslis frá borholum og breytingum á efnainnihaldi borholuvökva.
  2. Landsvirkjun standi fyrir svæðiseftirliti og vöktun sem fjallað er um í úrskurðinum og varðar breytingar á jarðhitasvæðinu og nánasta umhverfi þess vegna vinnslunnar. Það felst m.a. í athugunum á efnainnihaldi í hverum og gufuaugum nálægt vinnslusvæðinu, mælingum á hita í jarðvegi, vöktun hveravirkni á Hverarönd, landhæðar- og þyngdarmælingum, skjálftamælingum og gasmælingum á svæðinu. Einnig þarf að kortleggja virkan jarðhita.
  3. Landsvirkjun fylgist með hvort jarðhitavinnslan hafi áhrif á efnainnihaldi og streymi volgs grunnvatns til Mývatns með efnagreiningum og mælingum á hitastigi og vatnsborði í borholum og gjám. Ef svo reynist þarf að grípa til mótvægisaðgerða sem greint er frá í úrskurði Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 má kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra. Kærufrestur er til 2. apríl 2004.

 

Fréttasafn Prenta