Frétt

Sótt um rannsóknaleyfi fyrir Hrafnabjargavirkjun

31. mars 2004

Á ársfundinum var fjallað sérstaklega um orkulindir á Norðausturlandi. Bjarni sagði að orkulindirnar væru verulegar. Þær væru hins vegar dreifðar og þær þurfi að rannsaka betur. Á Norðurlandi má gera ráð fyrir að afl óbeislaðra orkulinda sé um 665 MW.

Ef áhugasamur og traustur fjárfestir finnst sem vill nýta þessar auðlindir þarf að vinna töluverða grunnvinnu áður en nýting þessara auðlinda getur hafist. Undirbúningstíminn getur tekið 3-5 ár ef engir alvarlegir hnökrar koma í ljós. Ef fjárfestirinn vill byggja stórt álver í einum áfanga, svipað og Alcoa gerir og venjan er hjá stórum álfyrirtækjum, þarf mun lengri undirbúningstíma vegna þess hve mikið skortir á rannsóknir og undirbúning virkjana og flutningskerfis.

Í máli Bjarna Bjarnasonar kom fram að Landsvirkjun sótti í lok síðustu viku um formlegt rannsóknaleyfi á Hrafnabjargavirkjun, sunnan við Mýri í Bárðardal, og einkaleyfi til rannsókna þar í 7 ár sem og einnig forgang til nýtingar á þeirri orku sem þar kann að vera.

Í fyrirlestri Bjarna kom einnig fram að dýrt væri að byggja upp flutningskerfi fyrir orkuna á Norðurlandi og það gæti tekið langan tíma.

Þeir virkjanamöguleikar sem eru á svæðinu gætu hentað litlu álveri, að stærðinni 90 til 100 þúsund tonn. Hins vegar er ólíklegt að nokkur festi fé í álveri af þeirri stærð nema gengið sé frá stækkunarmöguleikum samtímis. Bjarni nefndi einnig að jarðgufusvæðin væru sum lítið eða ekkert rannsökuð og línuleiðir væru sumar lítið kannaðar og óvíst væri um kostnað og leyfi. Því þarf að verja miklu fé til rannsókna og undirbúnings á næstu árum til að geta samið um frekari orkusölu.

Því er samvinna um nýtingu orkulindanna er æskileg. Það eykur hagkvæmni í fjármögnun, byggingu og rekstri og einfaldar samningagerð við stóra orkukaupendur

Viðhengi:
Fyrirlestur Bjarna Bjarnasonar 

 

Fréttasafn Prenta