Frétt

Athugasemd við umfjöllun fjölmiðla

14. apríl 2004
  1. Tilboð Impregilo í stíflugerð og aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar nam 84,5% af kostnaðaráætlun hönnuða.  Svo hagstæð tilboð eru fjarri því að vera einsdæmi og með engu móti er hægt að álykta að þau beri vott um að ekki sé ætlunin að fara að íslenskum kröfum um öryggi, aðbúnað og launakjör.

    Benda má á til samanburðar að Jóhann Bergþórsson tók þátt í tilboðsgerð Íslenskra aðalverktaka í byggingarverkþættina við Vatnsfellsvirkjun og stjórnaði þar verki.  Það tilboð nam einungis 64,5% af áætlun.  Varla hafa Jóhann og ÍAV byggt tilboð sitt á því að ætla sér að komast undan kröfum um öryggi, aðbúnað og launakjör.  Þá má nefna að nýlega gekk Landsvirkjun að tilboði íslensks verktaka í gerð hliðarstíflnanna við Kárahnjúka og var tilboðið vel innan við 60% af kostnaðaráætlun.
  1. Landsvirkjun gerði samning við Impregilo á grundvelli tilboðs fyrirtækisins með breytingum vegna lengri og víðari ganga og annarra umsaminna breytinga á verkinu.
  1. Í samningnum við Impregilo var, eins og í öllum verksamningum Landsvirkjunar, tryggilega gengið frá því að verktaki skyldi fara í einu og öllu eftir íslenskum lögum, reglum og kjarasamningum.
  1. Hlutfall launa af heildarkostnaði verksins samkvæmt samningi Landsvirkjunar við Impregilo er síst lægra en gengur og gerist í verkum sem þessum hérlendis.  Launabreytingar vegna kjarasamninga á verktímanum eru bættar í samræmi við vísitölur skv. verksamningnum.

Fréttasafn Prenta