Frétt

Samningur um flutning raforku vegna stækkunar Norðuráls

20. apríl 2004

Er samningurinn gerður vegna stækkunar Norðuráls og tekur hann til flutnings á rafmagni næstu 20 ár. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við flutningsmannvirki verði lokið áður en stækkuð verksmiðja Norðuráls tekur til starfa árið 2006.

 Undirritun samnings við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur

Samningur þessi er undirritaður í kjölfar samnings Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um orkusölu til Norðuráls vegna stækkunar álverksmiðjunnar í Hvalfirði.

Flutningssvið Landsvirkjunar hefur verið stjórnunarlega og bókhaldslega aðskilið frá öðrum þáttum starfsemi Landsvirkjunar síðan 1. júlí 2003 í samræmi við ný raforkulög. Samningurinn markar tímamót að því leyti að þetta er fyrsti samningur flutningssviðs Landsvirkjunar um raforkuflutning í nýju lagaumhverfi. Hið nýja fyrirkomulag miðar að því að skapa skilyrði til aukinnar samkeppni í vinnslu og sölu raforku og aðskilja frá þeirri starfsemi einkasöluþættina þ.e. flutning og dreifingu.

Hér er því verið að stíga stórt skref í átt að breyttu fyrirkomulagi raforkumála sem mun, þegar til lengri tíma er litið, gera öllum notendum kleift að velja sér raforkusala. Samningurinn byggir á sérstakri flutningsgjaldskrá fyrir stórnotendur raforku og koma þessar fjárfestingar ekki til með að hafa nein áhrif á flutningsverð rafmagns til almennings.

Fjárfestingar í flutningskerfi raforku áætlaðar nema 6.600 milljónum króna
Til að geta flutt rafmagn vegna stækkunar álversins þarf Flutningssvið Landsvirkjunar að fjárfesta í mannvirkum fyrir 6.600 milljónir króna. Stærsta fjárfestingin liggur í lagningu sk. Sultartangalínu 3 sem mun liggja frá tengivirki á Sandafelli við Sultartanga að Brennimel í Hvalfirði. Sultartangalína 3 fylgir í meginatriðum línuleið Sultartangalínu 1, en gerðar eru nokkrar breytingar á línuleiðinni til þess að fella hana betur að umhverfinu. Mat á umhverfisáhrifum línunnar hefur þegar farið fram og hefur ráðherra staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar.

Ráðgert er að línan verði komin í notkun áður en nýr áfangi Norðuráls verður tekinn í notkun, sem áætlað er að verði í febrúar 2006.  Með tilkomu línunnar þarf að gera viðeigandi breytingar í tengivirkjum á Brennimel og við Sandafell. Byggja þarf nýtt tengivirki við Kolviðarhól á Hellisheiði vegna tengingar Hellisheiðarvirkjunar við flutningskerfið.

Með tilkomu Sultartangalínu 3 er stigið stórt skerf til framtíðar sem tryggir Brennimel og Grundartanga í sessi sem afhendingarstaði fyrir raforku til stórnotenda auk þess að auka til muna afhendingaröryggi allra notenda á suðvesturhorni landsins. Reiknað er með að þörf skapist fyrir 270 ársverk meðan framkvæmdunum stendur.

Viðhengi:
Upplýsingar um Sultartangalínu 3 


Fréttasafn Prenta