Frétt

Tilhögun Norðlingaölduveitu

14. maí 2004

Norðlingaölduveita felur í sér veitu vatns úr Þjórsá yfir í Þórisvatnsmiðlun. Þjórsá er stífluð við Norðlingaöldu og við það myndast lón sem nefnt hefur verið Norðlingaöldulón. Vatni úr lóninu er dælt um skurði og jarðgöng upp í Illugaver austan við Kjalvötn. Þar sameinast það Kvíslaveitu og rennur til Þórisvatnsmiðlunar.

Við Þjórsárjökul, ofan friðlandsins, verða nokkrar kvíslar Þjórsár stíflaðar og myndað lón. Tilgangur þessa er annars vegar að veita vatni úr kvíslunum inn í Kvíslaveitu og hins vegar að fella út meginhluta þess aurs sem berst með þeim sem annars bærist niður í Norðlingaöldulón.

Stíflan yfir Þjórsá við Norðlingaölduveitu verður með yfirfalli í farvegi árinnar með hæð í 566 m y.s. Uppblásnar gúmmílokur verða á yfirfallinu sem geta hækkað yfirfallshæðina og er gert ráð fyrir að þær falli saman við stærri flóð í ánni auk þess sem þær verða saman felldar á sumrin. Lónhæð verður almennt 567,5 m y.s. að vetri til en almennt 566 m y.s. að sumri til.

Þegar mikið rennsli er í ánni að sumarlagi er vatnsborðið lækkað til að aur berist sem lengst inn í lónið. Gert er ráð fyrir að aurinn sem safnast fyrir í lóninu verði skolað út úr því um botnrás undir stífluna. Mikilvægt er að lónhæð sé hærri (sem mest vatnsdýpi) yfir vetrarmánuðina til að minnka hættu á ísvandamálum.

Viðhengi
Greinargerð um tilhögun framkvæmdarinnar
Mynd 1: Yfirlitsmynd
Mynd 2: Lón og veituleið
Mynd 3: Kort af lóni við Þjórsárjökul

 

Fréttasafn Prenta