Frétt

Námsstyrkir Landsvirkjunar afhentir

26. maí 2004

Formaður úthlutunarnefndar var Stefanía Katrín Karlsdóttir, rektor Tækniháskóla Íslands. Við afhendingu styrkjanna sagði hún að Landsvirkjun ætti hrós skilið fyrir þetta góða framtak, að veita nemendum í meistara- og doktorsnámi styrki til rannsókna. Sagði hún að fáir gerðu sér grein fyrir öflugu rannókna- og fræðastarfi Landsvirkjunar, en staðreyndin er sú að Landsvirkjun sinnir mikilvægum rannsóknum víða um land.

Úthlutunarnefndinni var mikill vandi á höndum við val á umsækjendum, þar sem mikill fjöldi góðra umsókna barst. Alls barst 31 umsókn. 22 umsóknir vegna meistaraverkefna og 9 vegna doktorsverkefna. Verkefnin skiptast á mörg fræðasvið m.a. verkfræði, jarðefnafræði, jöklafræði, hagfræði, viðskiptafræði, lögfræði, landafræði, sagnfræði og umhverfisfræði svo eitthvað sé nefnt.

Styrkirnir sex komu í hlut þeirra Ármanns Gylfasonar, Ástu Rut Hjartardóttur, Bergs Sigfússonar, Eiríks S. Svavarssonar, Rúnars Unnþórssonar og Unnar Birnu Karlsdóttur.

Ármann Gylfason stundar nú doktorsnám við Cornell University í Bandaríkjunum. Verkefni hans er á sviði eðlisfræði og verkfræði og fjallar um rannsókn á ferð agna í iðustreymi með stafrænni myndtækni. Verkefni hans skiptir máli við straumfræðivandamál, eins og þekkjast í vatnsvegum virkjana.

Ásta Rut Hjartardóttir stundar nú meistaranám við raunvísindadeild Háskóla Íslands. Verkefni hennar heitir Sprungusveimar eldstöðvakerfis Öskju í Dyngjufjöllum. Verkefninu er ætlað að kortleggja sprungusveima Öskjukerfisins í Dyngjufjöllum og varpa ljósi á samband sprungusveima og jarðskjálfta sem mælast á þessu svæði.

Bergur Sigfússon er að hefja doktorsnám við raunvísindadeild Háskóla Íslands og við háskólann í Aberdeen. Verkefni hans heitir Grunnvatnsmengun vegna upplýsingar eldfjallagjósku og fjallar um arsen-mengun vatns. Verkefnið hefur skýr markmið og tengist jarðhitanýtingu Landsvirkjunar.

Eiríkur S. Svavarsson stundar nú meistaranám í alþjóðlegri viðskiptalögfræði við University of Manchester. Verkefni hans heitir Ný raforkulög og reglur innri markaðar Evrópusambandsins. Það fjallar um stefnu Evrópusambandsins varðandi innri markað á raforku og þá hvaða heimildir íslensk stjórnvöld hafa til íhlutunar á raforkumarkaði í breyttu lagaumhverfi.

Rúnar Unnþórsson stundar nú doktorsnám við verkfræðideild Háskóla Íslands. Verkefni hans heitir Frumgreining bilana og galla og í því er þróuð aðferð sem nota má til ástandseftirlits vélbúnaðar og til að finna galla í framleiðsluvörum á frumstigi.

Unnur Birna Karlsdóttir stundar nú doktorsnám við heimspekideild Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hennar nefnist Náttúrusýn og nýting fallvatna á 20. öld. Markmið rannsóknarinnar er að kanna sögu og þróun náttúrusýnar á Íslandi á 20. öld. eins og hún hefur komið fram í umræðu um vatnsaflsvirkjanir og einstök vatnsföll, fossa og landsvæði.

Afhending námsstyrkja Landsvirkjunar 2004
Á myndinni eru frá vinstri: Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Svavar Sigurjónsson sem tók við styrknum fyrir hönd Eiríks Svavarssonar, Unnur Karlsdóttir, Ásta Rut Hjartardóttir, Sigurþóra Bergsdóttir fyrir hönd Rúnars Unnþórssonar, Bergur Sigfússon, Gylfi Sigurðsson fyrir hönd Ármanns Gylfasonar og Stefanía Katrín Karlsdóttir,
formaður úthlutunarnefndar.

 

Fréttasafn Prenta