Frétt

Samkomulag um tilhögun Norðlingaölduveitu

3. júní 2004

Eins og kunnugt er ákváðu sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjun sl. haust að stofna viðræðunefnd til að ræða fyrirkomulag Norðlingaöldumiðlunar í Þjórsá, sbr. úrskurð um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 30. janúar 2003 og umsögn Umhverfisstofnunar frá 1. júlí 2003. Samráðsnefndin hefur haldið alls 5 vinnufundi og kynnt sér málið ítarlega, m.a. með fundum með settum umhverfisráðherra, Jóni Kristjánssyni og ráðgjöfum hans, forstjóra og fulltrúum Umhverfisstofnunar og forstjóra og fulltrúum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Auk þess hefur fjöldi eldri og nýrri gagna verið kynntur nefndarmönnum.

Þessar viðræður hafa nú leitt til þess að náðst hefur samkomulag milli Landsvirkjunar og Skeiða- og Gnúpverjahrepps um tilhögun Norðlingaölduveitu. Lónhæð Norðlingaöldulóns verður við það miðuð að gúmmílokur á stíflu verði í 566 m y.s. að sumarlagi en í hæstu stöðu 567,8 m y.s. að vetrarlagi. Rekstrarhæð lónsins að vetrarlagi verður um 0,3 m lægri en sú staða eða í hæð 567,5 m y.s.

Í framhaldi af þessu samkomulagi munu Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Ásahreppur setja framkvæmdina inn á aðalskipulag hreppanna. Jafnframt mun nefnd um svæðisskipulag miðhálendisins gera breytingar á svæðisskipulaginu er tekur mið af samkomulaginu. Þetta ferli tekur væntanlega nokkra mánuði en þegar skipulagið hefur verið staðfest verður hægt að gefa út framkvæmdaleyfi á grundvelli þess.

Með áðurnefndu samkomulagi er lokið áratuga löngum deilum um þessa framkvæmd. Afar mikilvægt er að almenn sátt verði um framkvæmdina og góð samvinna takist við heimamenn um hana og önnur sameiginleg mál.

Fréttasafn Prenta