Frétt

Velkomin í opin hús Landsvirkjunar

14. júní 2004

Í Ljósafossi er sýningin “Sjá þar er maðurinn” eftir þá félaga Ágúst Elvar Vilhjálmsson og Birgi Frey Birgisson þar sem þeir gera skil náttúrufegurð í manngerðu umhverfi. Jafnframt er þar sýning í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá rafvæðingu okkar Íslendinga. Sýningin er opin frá 13-18 um helgar í sumar og frá 13-17 á virkum dögum. Í júlí opnar í Ljósafossi sýning Kjartans Guðjónssonar, listmálara.

Í Sultartanga er sýningin “Andlit Þjórsæla – mannlíf fyrr og nú”. Er í henni fjallað um samspil manns og náttúru í Þjórsárdal í 1100 ár. Er í Sultartanga jafnframt sýning um 100 ára sögu rafvæðingar og myndbönd frá byggingu Búrfellsstöðvar. Sýningin er opin alla daga í sumar frá 13-17.

Í Hrauneyjafossi er sýning um framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun, upplýsingar um vísindarannsóknir og sýning um sögu rafvæðingar í 100 ár. Jafnframt eru sýnd myndbönd um Þjórsárver og Vatnajökul og gefinn kostur á skoðunarferð um stöðvarhúsið undir vandaðri leiðsögn. Sýningin er opin alla daga í sumar frá 13-17.

Í Laxá hefur verið opnuð sýning með uppstækkunum á andlitum, drambsemi, djöfla og púka úr myndaröðinni Kenjarnar, eftir Goya, sem eru til sýnis í Listasafninu á Akureyri. Sýningin er opin alla daga í júní. Einnig er í Laxá að sjá sýninguna “Hvað er með Ásum?” sem er höggmyndasýning Hallsteins Sigurðssonar og fróðleikur og goðin og heimsmynd þeirra.

Blöndustöð opnar 12. júní. Þar verður sýningin “Ár og kýr!” sem er myndlistarsýning Jóns Eiríkssonar, bónda á Búrfelli, Húnaþingi vestra. Jón málaði eina mynd af kúm á dag allt kúaárið mikla 2003. Auk sýningar Jóns verður sýning í tilefni af 100 ára afmæli rafvæðingar. Sýningin er opin í sumar frá 13-17.

Sýning Jóns Eiríkssonar í Blöndustöð

Í Blöndustöð sýnir Jón Eiríksson 365 myndir af kúm

Í Kröflustöð er gestastofan opin, líkt og undanfarin ár. Menn komast í snertingu við kraftinn í Kröflu, geta gengið um Leirhnjúkasvæðið auk þess að skoða sýningu í tilefni 100 ára sögu rafvæðingar á Íslandi. Opið er í Kröflu frá 12:45-15:30 á virkum dögum og frá 13-17 um helgar.

Í Végarði í Fljótsdal er upplýsingamiðstöð um framkvæmdir við Kárahnjúka. Nauðsynlegur upphafspunktur á skoðunarferð um framkvæmdasvæðið. Nánari upplýsingar um sýninguna í Végarði og framkvæmdir við Kárahnjúka er að finna á www.karahnjukar.is.

 

Fréttasafn Prenta