Frétt

Jarðböðin við Mývatn opnuð

30. júní 2004

Þann 28. apríl sl. hleypti Landsvirkjun á lögnina til Baðfélagsins. Frá þeim tíma hafa Baðfélagsmenn fínstillt sína strengi fyrir opnun Jarðbaðanna fyrir almenning.

Með Jarðböðunum við Mývatn er ætlunin að viðhalda aldagamalli hefð fyrir böðum í Mývatnssveit, auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir ferðamenn, styrkja atvinnulíf á svæðinu og opna nýja möguleika í heilsutengdri ferðaþjónustu. Böðin eru staðsett við Jarðbaðshóla á jaðri háhitasvæðisins í Bjarnarflagi um 4 km. frá Mývatni.

Skóflustungu að böðunum tók Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þann 16. október sl. og hafa framkvæmdir staðið síðan. Jarðböðin eru við svokallaða Jarðbaðshóla og eiga böð sér langa forsögu á þessum stað. Eitt af því sem gerir þessi mannvirki einstök í sinni röð er hin holla gufa í gufuböðunum sem stígur beint upp úr jarðsprungum. Slíkt er einstakt á heimsvísu.
Á staðnum hafa m.a. verið byggð móttökuhús, snyrtingar, gufuböð, heitir pottar og loks baðlónin sjálf, sem samtals eru um 5.000 fermetrar að stærð.

Vefsíða Jarðbaða við Mývatn

 

Fréttasafn Prenta