Frétt

Landsvirkjun tekur þátt í mælingum á grunnstöðvaneti Íslands

1. september 2004

Athyglisvert er að í fyrsta sinn í sögunni sjá Íslendingar um allan undirbúning, eiga öll tæki og tól og mæla sjálfir hnitakerfi lands síns í heild sinni.

Grunnstöðvanetið er safn 119 fastmerkja, koparbolta í klöppum og steyptra stöpla og mynda grunninn að hnitakerfi landsins. Auk þeirra voru mældar 11 nýjar stöðvar. Þetta net var mælt síðast 1993, einnig með GPS landmælingatækjum og var nákvæmnin um 3 cm. Vegna jarðskorpuhreyfinga er talin þörf á að endurmæla það á um 10 ára fresti og má reikna með að sum fastmerkin hafi rekið tugi cm á um 10 árum, ýmist í átt að Ameríku eða Evrópu. Í nánustu framtíð mun um tugur símælandi GPS stöðva sjá um þessa vöktun kerfisins.

Hnitakerfi er ein af stoðum kortagerðar, verkhönnunar og verklegra framkvæmda, svo sem virkjanaframkvæmda og vegagerðar. Áætlað er að útreikningum netsins verði lokið í mars 2005 og verður þá t.d. fróðlegt að fá prófun á grunnstöðvum Kárahnjúkasvæðisins og útfrá jarðvísindalegu sjónarhorni rannsaka hvernig landrekið útfrá eldgosabeltinu skilar sér út til ystu annesja í austri og vestri.

 Mælingar á grunnstöðvaneti Íslands
Sveinbjörn Sveinbjörnsson mælir punktinn LM0331 í Grímsey

 

Fréttasafn Prenta