Frétt

Stefnumót fortíðar og nútíðar

2. september 2004

Ávarp Friðriks Sophussonar
Kveðja frá samstarfsaðilum við opnun Þjóðminjasafns Íslands
1. september 2004

Stefnumót nútíðar og fortíðarMér er það í senn heiður og ánægja að flytja kveðjur frá samstarfsaðilum Þjóðminjasafnsins á þessum merkisdegi, þegar safnið er opnað á nýjan leik eftir stækkun og endurbætur. Um skeið hafa nokkrir einstaklingar komið saman endrum og sinnum ásamt stjórnendum Þjóðminjasafnsins til að ræða málefni þess. Hópinn köllum við Hollvini Þjóðminjasafnsins. Í honum eru auk mín: Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, Einar Sveinsson, Íslandsbanka, Katrín Pétursdóttir, Lýsi, Kári Stefánsson, Íslenskri erfðagreiningu, Lilja Pálmadóttir, Langbrók, og Sverrir Kristinsson, Eignamiðlun.

Þjóðminjasafnið hefur reyndar ætíð átt góða vini. Meðal annars hefur Vinafélag Þjóðminjasafnsins, Minjar og Saga, undir forystu Sverris Kristinssonar unnið að því að vekja áhuga almennings á Þjóðminjasafninu og stutt safnið með því að kaupa muni sem hafa menningarsögulegt gildi og safnið telur best varðveitta hjá sér.

Landsvirkjun hefur frá árinu 2000 verið Bakhjarl Þjóðminjasafnsins og nú hafa bæst í vinahópinn nokkur af öflugustu fyrirtækjum landsins. Þau fyrirtæki, sem fyrst urðu fyrir valinu sem meginsamstarfsaðilar eru Bakkavör Group, KB banki og VÍS. Samtals munu þessi fyrirtæki leggja Þjóðminjasafninu til 45 milljónir króna á þremur árum. Flugleiðir, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Nýherji og Síminn hf. hafa lagt til búnað á grunnsýninguna og kemur það safninu afar vel. Þá hefur Íslensk erfðagreining verið í samstarfi við Þjóðminjasafnið um notkun upplýsinga og rannsóknir, sem tengir safnið við almenning og gerir það að lifandi uppsprettu fróðleiks um þjóðina.

Þjóðminjasafnið hefur gert samning við öll fyrrnefnd fyrirtæki, sem fá í stað framlaga sinna sérstaka þjónustu fyrir starfsmenn og viðskiptamenn. Landsvirkjun hefur góða reynslu af slíku samstarfi og í því sambandi bendi ég m.a. á sýninguna „Skáldað í tré“, sem var haldin í Ljósafossstöð við Sog og tókst afar vel.

Nýlega var að frumkvæði stjórnenda og Hollvina Þjóðminjasafnsins stofnaður Framfarasjóður Þjóðminjasafns Íslands og hefur skipulagsskrá hans verið staðfest af dómsmálaráðuneytinu. Markmið sjóðsins er að tengja safnið atvinnulífinu og afla fjár til sérstakra verkefna. Stofnendur sjóðsins eru Bakkavör Group, KB banki, Landsvirkjun og VÍS.

Stjórnendur Þjóðminjasafnsins hafa lagt ríka áherslu á að efla samstarf við atvinnulífið og ég er sannfærður um að það verður keppikefli allra öflugra og virtra fyrirtækja að slást í hóp samstarfsaðila og sýna þannig í verki hug atvinnulífsins til þjóðararfsins. Fyrirtækin hafa skyldum að gegna við það þjóðfélag, sem þau eru sprottin úr. Framlög fyrirtækjana eiga að vera viðbót við opinberar fjárveitingar en mega aldrei koma í staðinn fyrir þær. Framlögum fyrirtækjanna er ætlað að gera gott safn betra. Með því að styrkja Þjóðminjasafnið og gera þjóðararfinn aðgengilegan eflum við sjálfsímynd þjóðarinnar og þar með ímynd fyrirtækjanna, sem ætla að starfa hér á landi eða eru að hefja útrás til landa handan við hafið. Samstarf Þjóðminjasafnsins og fyrirtækjanna byggir þannig á gagnkvæmum ávinningi.

Nú þegar safnahús Þjóðminjasafnsins opnar á nýjan leik eftir miklar endurbætur getum við skoðað okkur í skuggsjá aldanna. Þá skiljum við betur hver við erum og hvaðan við komum og höfum betri forsendur til að ákveða hvert við viljum halda.

Fyrir hönd Hollvina Þjóðminjasafnsins og samstarfsaðila þess árna ég stjórnendum og starfsmönnum allra heilla. Þeir hafa haft hitann í haldinu að undanförnu og unnið frábært starf. Að lokum færi ég viðstöddum og reyndar þjóðinni allri hamingjuóskir á þessum merku tímamótum í sögu Þjóðminjasafns Íslands.

Fréttasafn Prenta