Frétt

Samráðshópur Landsvirkjunar og Alcoa um sjálfbæra þróun

20. september 2004

Bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði eru umfangsmestu framkvæmdir sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Verkefnin hafa eðlilega hlotið mikla athygli og umfjöllun og gríðarleg vinna var lögð í undirbúning og upplýsingasöfnun um hugsanleg áhrif, bæði á náttúru og samfélag, áður en endanleg ákvörðun var tekin um framkvæmdirnar. 

Bæði fyrirtækin sem standa að framkvæmdunum, Alcoa og Landsvirkjun, hafa hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi í starfi sínu og stefna að því að haga framkvæmdum með þeim hætti að langtíma efnahagslegur og félagslegur ávinningur verði sem mestur, en neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag verði lágmörkuð eins og kostur er. Fyrirtækin hafa tekið höndum saman og búið til sérstakt verkefni um mat á sjálfbærri þróun til að fylgjast sem best með áhrifum framkvæmdanna á Austurlandi og meta þessi áhrif út frá markmiðum fyrirtækjanna um sjálfbæra þróun.

Verkefnið gengur út að að þróa tölulega mælikvarða, svokalla „vísa um sjálfbæra þróun“, þar sem fylgst verður með ýmsum þáttum sem tilheyra hinum þremum meginstoðum sjálfbærrar þróunar; þ.e. efnahagsþróun, félagslegri velferð og verndun umhverfisins. Fyrir hvern vísi verður skilgreind ákveðin mælieining og upplýsingum safnað um grunnástand þannig að hægt sé að meta, með eins nákvæmum hætti og mögulegt er hverju sinni, hver eru áhrif framkvæmdanna á viðkomandi þátt og hvaða breytingar megi rekja til annarra áhrifa, ótengdum framkvæmdunum.

Tilgangur vísa um sjálfbæra þróun er tvíþættur. Í fyrsta lagi gefa þeir mikilvægar upplýsingar um áhrif verkefnanna á sjálfbæra þróun á Austurlandi sem hægt er að styðjast við þegar taka þarf ákvarðanir um sambærileg verkefni í framtíðinni. Í öðru lagi geta vísarnir varað við ef þróun stefnir í óæskilega átt og gert fyrirtækjunum kleift að bregðast við í þeim tilfellum sem þau hafa möguleika á að hafa áhrif á þróunina.

Fyrirtækin munu setja sér markmið, bæði almenn og sértæk fyrir hvern þátt sem á að fylgjast með. Í markmiðasetningu verður litið til stefnumörkunar um sjálfbæra þróun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Norðurlandanna og ríkisstjórnar Íslands. Stuðst verður sérstaklega við norræna áætlun um sjálfbæra þróun og íslenska stefnumörkun um sjálfbæra þróun.

Í tengslum við verkefnið hefur verið opnaður sérstakur vefur sem ber heitið www.sjalfbaerni.is


 

Fréttasafn Prenta