Frétt

Áhrif jarðskjálfta á háspennulínur Landsvirkjunar

17. janúar 2003

Stofnlínukerfi Landsvirkjunar er hannað þannig að það þoli þau veður sem koma hér með lægðum upp að landinu á haustum og vetrum ásamt tilheyrandi ísingu sem hleðst á leiðara (víra). Áhrif hörðustu jarðskjálfta eru helmingur eða þriðjungur af þeirri áraun sem kerfið fær frá miklum veðrum. Árið 1979 lét Landsvirkjun framkvæma úttekt á jarðskjálftaþoli stofnlínukerfisins og vann það þáverandi starfsmaður fyrirtækisins Árni Björn Jónasson í samráði við prófessor Júlíus Sólnes.

Metin voru áhrif skjálfta 5 og 7 á Richter. Niðurstaða skýrslunnar, sem nefndist Jarðskjálftar á Suðurlandi, Háspennulínur, var sú að "möstrin í báðum háspennulínunum (Búrfellslínum 1 og 2) þola burðarþolsfræðilega vel jarðskjálfta". Það þýðir í raun að lítil hætta er á að þessi möstur gefi sig í jarðskjálfta nema að sprunga opnist við undirstöðurnar. Í skýrslunni segir einnig að "jarðvegur gæti skriðið til, sprungið eða vatnmettast og misst þannig verulegt burðarþol". Þetta sannaðist í skjálftunum í júní árið 2000 þar sem skjálfti varð við Búrfellslínu 2 í Holtunum (6.6 á Richter) og annar beint undir háspennulínunni (5.3 á Richter), báðir 17. júní, og seinna við Hestfjall (6.6 á Richter) 21. júní í fárra kílómetra fjarlægð frá háspennulínunum Búrfellslínu 1, 2 og 3.

Ein undirstaða skekktist verulega nánast yfir upptökum fyrri skjálftans og nokkrar sigu eða hreyfðust. Stór hluti af kerfi Landsvirkjunar er með stöguðum möstrum sem hrynja ekki í jarðskjáfta þó svo undirstöðurnar skríði verulega til. Þetta varð og raunin í Búrfellslínu 2 þar sem fyrrnefnd undirstaða skekktist og seig. Óstagað mastur hefði ekki þolað að undirstaðan hefði skekkst þetta mikið. Það má því segja að ákvörðun sem tekin var fyrir 30 árum að byggja orkuflutningskerfið upp af stöguðum möstrum sé ekki bara góð að því leyti að þau eru að jafnaði minna áberandi í náttúrunni en aðrar gerðir mastra heldur einnig fylgir í kaupbæti að þau reynast sérlega vel í jarðskjálftum.

Tekið saman af Árna Birni Jónassyni

 

Fréttasafn Prenta