Frétt

Ekki gert ráð fyrir að heildsöluverð á raforku hækki

3. janúar 2005

Landsvirkjun barst svohljóðandi fyrirspurn frá Neytendasamtökunum þann 15. desember.

Efni:  Raforkuverðshækkanir

Að  undanförnu hafa fjölmiðlar fjallað um ætlaðar rafvorkuverðshækkanir um næstu  áramót vegna breytinga sem ný raforkulög hafa í för með sér. Fullyrt hefur verið  að hækkanir geti numið allt að 10%.

Vegna þessa  óska Neytendasamtökin upplýsinga um hjá Landsvirkjun hvort uppi eru áform um  verðbreytingar hjá Landsvirkjun um næstu áramót? Ef svo er er óskað eftir  rökstuðningi vegna hækkunnar og hver hækkunin verður í prósentum til  dreifiveitna á afhendingarstað (það er á sölu til annarra en  stóriðjuvera).

Með bestu kveðju
Jóhannes Gunnarsson
formaður Neytendasamtakanna

Landsvirkjun sendi Neytendasamtökunum eftirfarandi svar þann 28. desember.

Efni: Fyrirspurn Neytendasamtakanna um raforkuverð

Um áramótin ganga í garð kerfisbreytingar á raforkumarkaði hérlendis en undirbúningur þeirra hefur staðið yfir undanfarin misseri.  Breytingarnar fela í sér að nú verður aðskilnaður á framleiðslu, flutningi, dreifingu og sölu á raforku.  Vegna þessa hafa Landsvirkjun ásamt RARIK og Orkubúi Vestfjarða stofnað sérstakt fyrirtæki, Landsnet hf., um flutning raforku.  Stjórnunarlegur aðskilnaður ríkir á milli Landsnets og eigenda þess og byggir flutningsverð á opinberri gjaldskrá sem grundvölluð er á tekjuramma sem háður er verðlagseftirliti Orkustofnunar.  Rafveiturnar greiða síðan Landsneti hf. fyrir flutning eftir þeirri gjaldskrá.  Stjórnendur Landsnets hf. gefa upplýsingar um gjaldskrá flutnings raforku.

Landsvirkjun hefur á undanförnum árum lækkað raunverð rafmagns í heildsölu.  Rétt er að benda á að heildsöluverð rafmagns frá Landsvirkjun er innan við helmingur af heildarverði rafmagns í smásölu til almennra neytenda.  Í aðdraganda markaðsvæðingar raforkugeirans hefur Landsvirkjun boðið rafveitum samninga um kaup á rafmagni næstu árin þar sem verðið er breytilegt eftir lengd samninga svo að veiturnar geti mótað markaðsstefnu gagnvart almennum neytendum.  Hafa tilboðin verið gerð með þeim hætti að velji rafveiturnar að kaupa hagstæðustu samsetningu ofangreindra samninga verður ekki um raunhækkun á heildsöluverði á rafmagni vegna framleiðslu að ræða að meðaltali.  Þó getur orðið mismunur í verði milli einstakra veitna.  Kjósi rafveiturnar á hinn bóginn að kaupa rafmagn til stutts tíma með þeirri óvissu sem því fylgir hækkar heildsöluverð frá því sem nú er.

Landsvirkjun hefur ásamt öðrum orkufyrirtækjum haldið því fram frá upphafi umræðu um ný raforkulög að í nýju rekstrarumhverfi aukist kostnaður sem kann að fela í sér hækkun raforkuverðs til að byrja með.  Þannig kalla ný raforkulög m.a. á flóknar skipulagsbreytingar og ný vinnubrögð við verðlagningu og verslun með raforku.  Má hér nefna skiptingu fyrirtækja, aðskilnað rekstrarþátta, kostnað við eftirlit og aukna arðgjafarkröfu af einkaleyfisstarfsemi.  Þá hefur nýtt umhverfi í för með sér margháttaða óvissu fyrir Landsvirkjun sem og önnur orkufyrirtæki.

Eins og hér hefur verið rakið gerir Landsvirkjun ekki ráð fyrir að heildsöluverð raforku frá fyrirtækinu hækki að raungildi á næsta ári og ætti verð á raforku í heildsölu því ekki að gefa tilefni til verðhækkana á rafmagni í smásölu umfram verðlagsbreytingar.

Virðingarfyllst
Friðrik Sophusson
forstjóri

Fréttasafn Prenta