Frétt

Efling urriðastofns Þingvallavatns og Steingrímsstöð

23. febrúar 2005

Þetta hefur fyrirtækið gert með rannsóknum á ástandi, afkomu, atferli og dreifingu urriða í Þingvallavatni auk fiskræktar.

Árlegar rannsóknir á ástandi og afkomu urriða í Þingvallavatni hafa staðið yfir frá árinu 1998 á vegum Veiðimálastofnunar fyrir Landsvirkjun.  Landsvirkjun hefur auk annarra aðila styrkt verkefni Laxfiska ehf. er felur í sér að auka þekkingu á atferli, lífsháttum og dreifingu urriðans í Þingvallavatni. Rannsóknir hófust á árinu 2003 og standa yfir til ársins 2007.

Landsvirkjun hefur staðið fyrir fiskrækt í Þingvallavatni sem hófst með söfnun klakfiskjar í Öxará árið 1991 og síðan aftur á árunum 1997 til 2003. Árlega hefur verið sleppt á bilinu 8.000 - 32.000 urriðaseiðum í vatnið eða alls 127.000 seiðum. Af þeim hafa um 40.000 seiði verið merkt.

Niðurstöður rannsókna sýna að urriði þrífst vel í vatninu og árangur seiðasleppinga hefur verið góður. Urriði mun koma í vaxandi mæli fram í veiði á næstu árum. Reikna má með að urriði úr sleppingu ársins 1998 hafi orðið  kynþroska haustið 2004 og gæti farið að leita sér að hentugum stað til hrygningar við útfallið.

Auk þessa hefur Landsvirkjun haldið vatnsborði Þingvallavatns mjög stöðugu á undanförnum árum  og hleypt vatni framhjá Steingrímsstöð um farveg Efra Sogs. Að jafnaði hefur verið hleypt 4 m3/s vatns niður farveginn, en meira vatni hefur verið hleypt framhjá þegar vatnsborð Þingvallavatns hefur hækkað ört og nálgast hágildi rekstrarmarka.

Vatninu er hleypt undir árlokur stíflunnar. Tilgangur slíks framhjárennslis er fyrst og fremst að auka framleiðslugetu svæðis neðan stíflunnar fyrir lífríkið. Yfirborðsvatn úr Þingvallavatni er mikilvægt fyrir það líf sem er neðar í kerfinu þ.e. í Efra Sogi, Úlfljótsvatni og Sogi neðan Sogsstöðva. Botndýralíf eykst og urriði og bleikja getur nýtt sér farveg Efra Sogs til hrygningar og uppeldis. Niðurstöður rannsókna sýna að framhjárennsli undanfarinna ára hefur haft jákvæð áhrif á botndýralíf og fiskstofna Úlfljótsvatns.

Á undanförnum árum hafa verið hugmyndir uppi um að gera skarð í stíflu Steingrímsstöðvar.  Í stað framhjárennslis undir lokur í stíflunni verði gert gat í stífluvegginn sem takmarki útrennsli við 3 m3/s.  Þannig fengist yfirborðsvatn niður farveginn í stað vatns undir lokur stíflunnar.

Fram hafa komið hugmyndir um að leggja niður Steingrímsstöð til þess að efla urriðastofninn.  Ekki er talið að slík aðgerð skili miklum árangri ein og sér.  Stöðin er nýuppgerð og er 27 MW að stærð.  Hún framleiddi um 150 GWst á sl. ári sem er heldur meira en ársnotkun á orkuveitusvæði Norðurorku á Akureyri. Á almennum markaði er heildsölu verð þeirrar raforku um 470 milljónir kr. á ári.  Kostnaður við að byggja sambærilega virkjun er um 3.500 milljónir kr.

Viðhengi:
Glærusýning: Efling urriðastofns Þingvallavatns


Fréttasafn Prenta