Frétt

Dularfulla dúóið í Kárahnjúkum

4. mars 2005

Dularfulla dúóiðÞarna voru á ferð aðstandendur Stundarinnar okkar í Sjónvarpinu að taka upp sakamálaþátt handa börnum. Tveir slyngir spæjar, Ermenrekur og Bergur, voru á vettvangi að leita að prófessor Finnmaur, illa þokkuðum og sérlega vafasömum náunga sem starfar röngum megin laga og réttar.

Prófessorinn ætlar að ná valdi yfir öllu mannkyni og þar með jörðinni allri með heilabylgjurafstjórnunartækinu sínu. Þessu tæki þarf hann að koma fyrir í iðrum jarðar og setja í samband til að stjórna að vild öllum lifandi verum sem á annað borð hafa heila. Auðvitað liggur beint við að skúrkurinn reyni að koma græjunum sínum í gagnið í neðanjarðarmannvirkjum Kárahnjúkavirkjunar og vonir mannkyns eru nú bundnar við að spæjurunum tveimur takist að stöðva þetta ráðabrugg í tæka tíð. Um lyktir þessarar tvísýnu baráttu góðs og ills fáum við hins vegar ekki að vita fyrr en í Stundinni okkar í haust.

Sjónvarpsfólkið fór í sömu ferð að Kárahnjúkum og heimsótti krakkana í alþjóðlegum grunnskóla Impregilo þar. Afrakstur þeirrar heimsóknar verður sýndur fljótlega í Morgunstund barnanna í Sjónvarpinu sem sýnd er um helgar.

 

Fréttasafn Prenta