Frétt

Námsstyrkir Landsvirkjunar afhentir

8. apríl 2005

Samkvæmt ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar er árlega úthlutað styrkjum til efnilegra námsmanna á meistara og doktorsstigi. Markmið Landsvirkjunar með þessum styrkjum er að efla menntun og rannsóknir á fræðasviðum tengdum starfssemi Landsvirkjunar og laða hæfa einstaklinga að til starfa.

Styrkir þessir voru auglýstir í annað skipti í lok síðasta árs og bárust um 50 umsóknir. Var úthlutunarnefnd mikill vandi á höndum við valið, þar sem umsóknir voru almennt mjög vandaðar og verkefnin áhugaverð.  Er það fyrirtækinu gleðiefni hve áhugi háskólanema var mikill. Að þessu sinni voru til ráðstöfunar þrjár milljónir króna.  Dómnefndin ákvað að veita 7 styrki að upphæð 400 til 500 þúsund krónur hver.

Styrkirnir sjö komu í hlut þeirra Eddu Sif Aradóttur, Eyrúnar Linnet, Ólafs Oddbjörnssonar, Reynis Freys Bragasonar, Þórunnar Pétursdóttur, Eddu S. Oddsdóttur og Hálfdáns Ágústssonar.

Edda Sif Aradóttir stundar meistaranám í eðlisefnafræði við Háskóla Íslands. Meistaraverkefni Eddu fjallar um leit að heppilegri samsetningu magnesíum og annarra málma, sem geti þjónað sem hentug vetnisgeymsla fyrir farartæki.

Eyrún Linnet stundar meistaranám í rafmagnsverkfræði með raforkukerfi sem aðalfag við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn. Verkefnið hennar heitir „Investigation on an aluminium smelter in a very weak power system“. Markmið verkefnisins er að rannsaka hvernig nýta má nýjustu tækni til að lágmarka áhrif álags frá álveri á Norðurlandi á flutningskerfið.

Ólafur Oddbjörnsson en stundar meistaranám í byggingarverkfræði við Háskólann í Bristol.  Meistaraverkefni Ólafs er á sviði jarðskjálftaverkfræði. Það fjallar um hegðun mannvirkja af ákveðinni gerð forsteyptra eininga undir áraun af jarðskjálftum.

Reynir Freyr Bragason stundar meistaranám í rafmagnsverkfræði og stýritækni við Tækniháskólann í Lundi. Verkefni Reynis heitir „Damping in the Icelandic power system“. Megin markmið þess er að þróa búnað til að róa/dempa aflsveiflur í veiku flutningskerfi.

Þórunn Pétursdóttir stundar meistaranám í Umhverfisdeild nýstofnaðs Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefni hennar heitir „Heildstætt árangursmat á landbótaaðgerðum“. Meginmarkmið þess er að bera saman árangur nokkurra mismunandi aðferða við landgræðslu.

Edda S. Oddsdóttir starfar á Rannsóknastöð Skógræktar á Mógilsá frá 1997. Doktorsverkefni hennar snýst um samspil lífvera í jarðvegi og áhrif þeirra á vöxt og þrif birkivistkerfa, en m.a. hefur komið í ljós að verulegur skortur er á nytsömum jarðvegsörverum í örfoka landi.

Hálfdán Ágústsson stundar doktorsnám í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hans heitir „Vindar í fjöllóttu landslagi“. Megin markmið þess er að rannsaka þau ferli og aðstæður sem leiða til mikilla sveiflna í vindhraða við yfirborð jarðar og bæta þar með núverandi aðferðir til að spá fyrir um vindhviður.

Fréttasafn Prenta