Frétt

Viðurkenningar til starfsmanna og forystumanna í orkumálum

8. apríl 2005

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, sem afhenti viðurkenningarnar sagði að í tilefni 40 ára afmælis Landsvirkjunar vildi Landsvirkjun nota tækifærið og heiðra nokkra aðila.

Fyrsta er að nefna tvo núverandi starfsmenn fyrirtækisins sem hafa verið hjá því frá upphafi. Síðan 4 forystumenn sem hafa lagt mikið af mörkum til uppbyggingar fyrirtækisins og íslenskra orkumála.

Snjólaug Sigurðardóttir
Snjólaug hóf störf hjá Landsvirkjun við stofnun fyrirtækisins þann 1. júlí 1965 og hefur starfað þar óslitið síðan, fyrst sem einkaritari framkvæmdastjóra, og síðar sem fulltrúi á skrifstofu forstjóra.
Áður en Snjólaug hóf störf hjá Landsvirkjun, hafði hún starfað nokkur sumur á Raforkumálaskrifstofunni.  Hún hefur því helgað orkumálum þjóðarinnar alla sína starfskrafta og geri aðrir betur.
Enginn starfsmaður Landsvirkjunar getur státað af jafnlöngum starfsaldri og Snjólaug, en hann er eins og fyrr greinir, jafnlangur fyrirtækinu.

Sigurður Jónsson
Sigurður hóf störf við Sogsvirkjun, sem þá var í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, þann 1. júní 1964.  Reyndar var hann þá ráðinn til sumarvinnu 19 ára gamall en svo fór að Sigurður hætti ekki um haustið eins og aðrir sumarmenn, og var því í hópi þeirra starfsmanna sem gerðust starfsmenn Landsvirkjunar þann 1. janúar 1966 þegar Landsvirkjun yfirtók rekstur fyrirtækisins, þar sem hann hefur starfað óslitið síðan.
Sigurður hefur lengst af unnið almenn verkamannastörf við stöðvarnar allar.

Jóhannes Nordal
Jóhannes var kjörinn stjórnarformaður Landsvirkjunar við stofnun fyrirtækisins þann 1. júlí 1965.  Hann gegndi stjórnarformennskunni allt til ársins 1995 eða í 30 ár samfellt.
Jóhannes starfaði lengst af sinnar starfsævi sem seðlabankastjóri og gegndi jafnframt fjölmörgum trúnaðarstörfum auk formennsku í LV.  Hann var m.a. formaður viðræðunefndar um orkufrekan iðnað.

Árni Grétar Finnsson
Árni var kjörinn í stjórn Landsvirkjunar við stofnun fyrirtækisins þann 1. júlí 1965.  Þar hefur hann setið óslitið fram til dagsins í dag eða í tæp 40 ár.  Árni hefur lengst af starfsævi sinni rekið eigin lögfræðistofu.  Hann sat um árabil í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Árni er hagmæltur vel og hefur gefið út 3 ljóðabækur.  

Halldór Jónatansson
Halldór hóf störf hjá LV í ársbyrjun 1966 sem skrifstofustjóri hins nýja fyrirtækis sem þá var að stíga sín fyrstu skref í orkumálum landsmanna.  Að loknu framhaldsnámi frá Fletcher School of Law and Diplomacy í Boston í USA starfaði hann sem lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu áður en hann réðst til LV.
Hann var ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins 1970 og tók síðan við af Eiríki Briem sem forstjóri Landsvirkjunar 1983.  Því starfi gegndi Halldór síðan óslitið þar til hann lét af störfum í árslok 1998.

Jóhann Már Maríusson
Jóhann Már hóf störf hjá LV í ágústmánuði 1970.  Hann hafði áður unnið hjá verkfræðifyrirtækinu Harza í Chicago, en það fyrirtæki annaðist byggingareftirlit með Búrfellsvirkjun.
Jóhann starfaði upphaflega sem yfirverkfræðingur á verkfræðideild Landsvirkjunar en var ráðinn aðstoðarforstjóri fyrirtækisins þann 1. maí 1983.  Því starfi gegndi hann óslitið til starfsloka, þó með þeim breytingum sem urðu við skipulagsbreytinguna í júní 2000.

Jakob Björnsson
Jakob Björnsson lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku 1953 og hefur allan sinn starfsaldur látið að sér kveða í orkumálum á landinu.  Í upphafi kom hann til starfa hjá Rafmagnveitu Reykjavíkur og síðan Raforkumálaskrifstofunni og Orkustofnun.  Hann var orkumálastjóri frá 1973 og mikill drifkraftur í uppbyggingu orkumála og samtengingu landsins í eitt veitukerfi.  Frá því að hann hætti sökum aldurs sem orkumálastjóri 1996 hefur hann verið óþreytandi í þjóðmálaumræðunni um orkumál.

Fréttasafn Prenta