Frétt

Sjálfbærni á Austurlandi og græn vottorð

8. apríl 2005
Tengt efni
 Erindi Ragnheiðar Ólafsdóttur
Erindi Eiríks Svavarssonar

Í erindi Ragnheiðar Ólafsdóttur kom fram að sjálfbær þróun mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Ragnheiður sagði að mikilvægi þessarar skilgreiningar felst í því að í dag er ekki lengur til sá blettur á jarðarkringlunni sem menn hafa ekki haft áhrif á.

Ragnheiður Ólafsdóttir

Ragnheiður Ólafsdóttir,
umhverfisstjóri Landsvirkjunar

Markmið verkefnisins um sjálfbæra þróun á Austurlandi eru þau að styðja hugmyndafræði um sjálfbæra þróun og taka tillit til umhverfis, efnahags og félagslegra þátta.

Einnig verða þróaðir vegvísar til eftirfylgni. Þeir eiga að hjálpa fyrirtækjunum við að fylgja eftir markmiðum sínum um sjálfbæra þróun á byggingar- og rekstrartíma framkvæmdanna. Þá verður fylgst með árangri Landsvirkjunar og Alcoa við að ná fram markmiðum sínum um sjálfbærni við framkvæmdir á Austurlandi. Þátttakendur í hópnum auk Landsvirkjunar og Alcoa eru fólk úr opinbera geiranum, sveitarfélögum, félagasamtökum og úr viðskiptalífinu.

Sem dæmi um málefni sem samstarfshópurinn vildi fjalla um má nefna rof og aurburð, byggðaþróun, samfélagslega innviði og áhrif á villt dýr. Hópurinn hefur skilgreint 45 vísa og 77 mælikvarða. Sem dæmi um vísa og mælikvarða má nefna

  • Umhverfisvísir: Áhrif á fugla - Heiðagæsir. Mælikvarði: Fjöldi heiðagæsa á völdum
    svæðum
  • Félagslegir vísar: Lýðfræðilegar breytingar á Austurlandi. Mælikvarði: Kyn- og aldurssamsetning
    íbúa á Austurlandi
  • Efnahagslegir vísar: Fjárhagsleg velferð. Mælikvarði: Tekjur íbúa á Austurlandi borið saman við tekjur á landsvísu

Ragnheiður sagði að árangur verkefnisins kæmi ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár. Hún sagðist vonast til að samstarfsverkefnið yrði upphafið að breyttum vinnubrögðum.

Græn vottorð

Eiríkur Svavarsson sagði í erindi sínu frá því að verið væri að taka upp nýja raforkutilskipun 2003/54/EC innan Evrópusambandsins sem fellir þá gömlu úr gildi. Þessi nýja raforkutilskipun hefur ekki verið tekin upp á hinu Evrópska efnahagssvæði og því gildir tilskipunin frá 1996 enn hér á landi.

Eiríkur sagði að nýju íslensku raforkulögin gengju oft mun lengra en raforkutilskipunin kveður á um. Til dæmis kveða lögin á um stjórnunarlegan aðskilnað flutningskerfisins frá öðrum þáttum markaðarins og sagði hann að miðað við íslenskar aðstæður megi færa fyrir því rök að það hafi verið skynsamleg lausn.

Í öðru lagi sagði hann það vera athyglisvert að lögin væru í raun í samræmi við nýju raforkutilskipunina frá 2003 og því mun ekki þurfa að 4-3 gera neinar verulegar breytingar á raforkulögunum þegar nýja raforkutilskipunin verður tekin upp á Evrópska Efnahagssvæðinu. Það má því segja að þó við Íslendingar höfum verið tiltölulega seinir að taka upp þetta regluverk séum við þegar búnir að gera ráð fyrir nýjustu kröfunum þó þær eigi lagalega ekki enn við hér á landi.

Eiríkur sagði einnig frá grænum vottorðum. Hann sagði að viðskipti með þau fælust í því að raforkuframleiðandi á innri markaðnum sem framleiðir hátt hlutfall raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum, geti selt græn vottorð vegna framleiðslu sinnar til framleiðanda annars staðar á innri markaðnum sem eykur með því hlutdeild grænnar framleiðslu hjá sér.

"Með þessu eru að skapast nokkrir möguleikar fyrir íslenska raforkuframleiðendur til að selja ákveðna aukaafurð einfaldlega vegna þess að hér á landi fer raforkuframleiðsla nánast einungis fram með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þessir möguleikar eru að opnast þar sem Ísland er nú hluti af innri markaði fyrir raforku", sagði Eiríkur

Eiríkur sagði erfitt að spá um framtíðina varðandi sölu grænna vottorða. "Það er t.a.m. ljóst að regluverkið í kringum þessi mál verður í mikilli gerjun á næstu tveimur árum. Það má hins vegar gera ráð fyrir því að sala þessara vottorða verði aðeins aukaafurð í rekstri íslenskra raforkufyrirtækja. Verð á þessum vottorðum er ekki mjög hátt og jafnvel þó það hækki töluvert munu þau ekki hafa nein veruleg áhrif á tekjumyndun raforkuframleiðenda hér á landi", sagði Eiríkur.

Fréttasafn Prenta