Frétt

Djúpborunum haldið áfram með stuðningi erlendra vísindasjóða

8. apríl 2005

Friðrik Sophusson á samráðsfundi Landsvirkjunar 2005Friðrik sagði að samkvæmt þeim líkönum sem gerð hafa verið um afkomu jökla mun afrennsli af jöklunum árið 2030 hafa aukist um 30% frá því sem það er í dag, og eftir 200 ár verða þessir jöklar næstum horfnir.

„Mikilvægt er að byrja strax að huga að því hvað slíkar breytingar í rennsli þýða fyrir núverandi virkjunarmannvirki og hvernig hægt sé að nýta þessa þekkingu við hönnun á nýjum mannvirkjum og breytingar á gömlum mannvirkjum. Vatna-, veður-, og jöklamælingar eru mikilvægar til þess að fylgjast með breytingum á vatna- og veðurfari og hve hratt slíkar breytingar eru að gerast “, sagði Friðrik í erindi sínu.

Einnig kom fram í erindi hans að samkvæmt mælingum á Langjökli og Vatnajökli á jökulárinu 2003-2004 var afkoma jöklanna neikvæð sem nam 1,49 m jafndreift yfir allan Langjökul og neikvæð sem nam 0,92 m yfir Vatnajökul. Á síðustu 6 árum hefur afkoma Langjökuls verið neikvæð um samtals 10,62 m, og á síðustu 13 árum hefur afkoma Vatnajökuls verið neikvæð um samtals 6,75 m.

Ef horft er lengra til framtíðar eftir að jöklarnir hafa bráðnað þá ber að hafa það í huga að þó svo að jöklarnir hverfi þá mun úrkoma áfram falla á þau svæði sem þeir áður þöktu. Því má jafnvel búast við að eftir 200 ár muni afrennsli af þeim svæðum sem jöklar áður þöktu verða svipað og það var áður en jöklarnir byrjuðu að minnka. Ef tekið er tillit til aukinnar úrkomu gæti þetta afrennsli jafnvel aukist eitthvað. Mun jafnari dreifing á rennsli yfir árið mun valda betri nýtingu á
vatninu til raforkuframleiðslu þar sem minna vatn mun fara til spillis.

Þá sagði Friðrik frá framhaldi djúpborunarverkefnis sem Landsvirkjun hefur unnið að á fjórða ár í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og nú síðast einnig Orkustofnun. Með djúpborunum er stefnt að því m.a. að kanna hver sé raunverulegur orkuforði landsins. Friðrik sagði að í ljósi forathugunar sem aðilar stóðu að um djúpboranir á árunum 2001-2003, má leiða að því líkur að nýtanlegar háhitaauðlindir landsins kunni að vera stórlega vanmetnar.

„Nú er talið fullvíst að tveir erlendir vísindasjóðir muni leggja fram fjármuni sem nema um 260 m.kr eða 4,2 milljónum Bandaríkjadollara til íslenska djúpborunarverkefnisins. Mikilvægt er að íslenska ríkið leggist á árarnar með 2-14 orkufyrirtækjunum og hinum erlendu aðilum til að djúpborunarverkefnið komist á skrið á næstu misserum“, sagði Friðrik í erindi sínu.

Friðrik sagði að leggja verði áherslu á að hér sé um langtímarannsóknarverkefni að ræða sem óvíst er hvort beri árangur. Yfirstíga þurfi fjölmörg vandasöm tæknileg úrlausnarefni áður en hægt verði að nýta gufu með jafnmiklum hita og þrýstingi og leitað er eftir auk þess sem óvissa ríki um magn og efnasamsetningu borholuvökvans og hvort hann verði yfirhöfuð nýtanlegur með þekktri tækni. Mörg ár og jafnvel áratugir muni því líða áður en hægt verður að fullyrða um hvort hugmyndir um stóraukna orkuvinnslu með djúpborun séu raunhæfar og hagkvæmar.

Viðhengi:
Ræða Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar


Fréttasafn Prenta