Frétt

Saga Landsvirkjunar komin út

12. júlí 2005

Saga LandsvirkjunarBókin skiptist í sjö kafla þar sem tekið er á ólíkum atriðum sem varða sögu fyrirtæk­isins. Í bókinni er fjöldi ljósmynda og í viðaukum eru gefnar ýmsar upplýsingar, m.a. um starfsmenn á mismunandi tímum, framkvæmdir, mannvirki og fleira.

Ritnefnd bókarinnar skipuð þeim Árna Grétari Finnssyni, formanni, Jónasi Haralz, Pétri Jónssyni og Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni réð Sigrúnu Pálsdóttur, sagnfræðing, til að ritstýra verkinu. Hún er einnig aðalhöfundur verksins. Höfundar með henni eru Birgir Jónsson, Guðmundur Hálfdánarson, Gunnar Helgi Kristinsson, Jón Þór Sturluson, Pétur Ármannsson, Skúli Sigurðsson og Unnur Birna Karlsdóttir.

Útgefandi bókarinnar er Hið íslenska bókmenntafélag.

Á bókarkápu er efni bókarinnar lýst með eftirfarandi hætti:

„Starfsemi Landsvirkjunar í nær fjóra áratugi hefur ekki einungis verið stór þáttur í atvinnu- og efnahagssögu þjóðarinnar heldur haft afgerandi áhrif á þróun íslensks samfélags á 20. öld, hvort heldur er á byggðaþróun, búskapar- og lifnaðarhætti, tækniþekkingu, þjóðernismál eða viðhorf til náttúrunnar.

Hvað olli því að markviss uppbygging orkuiðnaðar á Íslandi hófst árið 1965, um það bil 50 árum eftir að fyrstu hugmyndir og áform um slíkan iðnað komu fyrst fram hér á landi? Hvernig hefur hlutverk Landsvirkjunar breyst á síðustu 40 árum? Hvernig birtast átök um raforkumál í stjórnmálasögu 20. aldar? Hvaða náttúrusýn birta átökin um framkvæmdir Landsvirkjunar? Hver er byggingararfleifð vatnsaflsvirkjana á Íslandi? Hvaða áhrif hafa framkvæmdir Landsvirkjunar haft á þróun íslenskrar tækniþekkingar?“

 

Fréttasafn Prenta