Frétt

Er Kárahnjúkavandinn til?

3. ágúst 2005

Stefán Pétursson
framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um hátt gengi íslensku krónunnar og neikvæð áhrif hennar á stöðu útflutningsatvinnugreina. Andstæðingar framkvæmd­anna á Austurlandi hafa þrásinnis nefnt Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers Alcoa á Reyðarfirði sem aðalorsakavald þessa ástands og tala oftar en ekki um Kárahnjúkavandann. Kom þetta síðast fram í Kastljósþætti nýverið í Ríkissjónvarp­inu þar sem talsmaður mótmælenda við Kárahnjúka lét að því liggja að fiskverkafólk á Bíldudal og Suðurnesjum væri að missa vinnuna vegna ruðningsáhrifa frá þessum framkvæmdum.  Þetta er mikil einföldum á aðstæðum í íslensku efnahagslífi. 

Bera Kárahnjúkar sök á mikilli hækkun krónunnar?
Framkvæmdirnar á Austurlandi eru viðamestu framkvæmdir Íslandssögunnar. Þær hafa hins vegar ekki eins mikil bein áhrif á innlent efnahagslíf og ætla mætti. Rétt er að verulegur hluti bæði álversins og Kárahnjúkavirkjunar er fjármagnaður erlendis. Það þýðir þó ekki að Landsvirkjun og Alcoa séu að kaupa krónur í sama mæli. Í fyrsta lagi kemur mikill hluti þeirra aðfanga sem notuð eru erlendis frá.  Þannig eru tekin erlend lán til að greiða fyrir erlend innkaup án þess að íslenska krónan komi þar nærri. Í öðru lagi kemur mikill hluti vinnuaflsins við Kárahnjúka og álversfram­kvæmdir á Reyðarfirði erlendis frá sem þýðir að launagreiðslur renna einnig til útlanda að stórum hluta. Þensla á vinnumarkaði hérlendis hefur oft tengst stóriðjuframkvæmdum. Þetta á ekki við um framkvæmdir Landsvirkjunar nú þar sem flutningur á vinnuafli af höfuðborgarsvæðinu austur er í litlum mæli.

Hvað með aðrar framkvæmdir?
Það má ekki gleyma því að það eru fleiri stóriðjuframkvæmdir í gangi en Landsvirkjunar. Unnið er að stækkun Norðuráls með tilheyrandi virkjunarfram­kvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. Er talið að fjárfestingar þessara aðila nemi um 30% af heildarfjárfestingum í orku og áli.

Hvað veldur gengishækkuninni?
Kárahnjúkaframkvæmdirnar höfðu eflaust áhrif í upphafi með þeim væntingum sem jafnan fylgja stórframkvæmdum. Veigameiri hafa þó verið kaup erlendra aðila á íslenskum skuldabréfum, húsnæðislán bankanna, skuldsett hlutabréfakaup og vaxtahækkanir Seðlabankans.

Kaup erlendra sjóða á íslenskum verðbréfum höfðu ásamt stóriðjuvæntingum þau áhrif að gengi krónunnar hækkaði á árinu 2002 eftir að hafa verið lágt árinu áður.  Það var síðan ekki fyrr en á árinu 2004 að gengið fór að styrkjast að ráði og þá einkum í tengslum við yfirtökur og útboð á hlutabréfamarkaði sem fjármagnaðar voru með erlendu lánsfé.

Á þessu ári hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti verulega í kjölfar þenslu á íbúðamarkaði og auknu aðgengi að íbúðalánum sem ýtt hafa undir stóraukna einkaneyslu.  Hækkaðir vextir hafa í kjölfarið aukið eftirspurn spákaupmanna eftir krónunni og gengið því hækkað enn frekar.  Þá hafa skuldsett viðskipti á hlutabréfa­markaði verið sem aldrei fyrr og má gera ráð fyrir að þau ein séu fjórfalt meiri en sem nemur innflutningi á fjármagni vegna stóriðjuframkvæmda í heild á þessu ári.

Er gengishækkun neikvæð?
Það fer auðvitað eftir því hvernig litið er á.  Tekjur útflutningsfyrirtækja lækka að öðru óbreyttu við hækkun krónunnar enda lækkar verðmæti afurða þeirra í krónum talið, þ.e. þau fá færri krónur fyrir hverja Evru eða Dollar.  Á móti kemur að innfluttar vöru lækka í verði og kaupmáttur krónunnar erlendis eykst til muna sem kemur heimilum í landinu til góða.

Það er oft rætt um að ruðningsáhrif séu af hinu illa og auðvitað verður að hafa skilning á stöðu þess fólks sem missir jafnvel vinnuna út af háu gengi krónunnar. Við megum hins vegar ekki gleyma því að ruðningsáhrif eru nauðsynleg fyrir framþróun í efnahagslífinu og þar með lífskjör þjóðarinnar.  Það voru stöðug ruðningsáhrif á 19. og 20. öldinni sem breyttu Íslandi úr bændasamfélagi í þróað hátæknisamfélag. Hefðum við viljað fara á mis við þann ruðning?

 

Fréttasafn Prenta