Frétt

Samstarf Landsvirkjunar og Amnesty International um sýningarhald

17. ágúst 2005

Á hverju sumri opnar Landsvirkjun mörg orkuver sín fyrir ferðafólki og eru þar haldnir ýmiss konar viðburðir. Það var Landsvirkjun sérstakt ánægjuefni að Amnesty International óskaði eftir því við fyrirtækið að fá að halda sýningu í Blöndustöð í tilefni af 30 ára starfsafmæli samtakanna á Íslandi.  Í kjölfarið var áhugaverð sýning Amnesty International opnuð þar í byrjun ágúst og fjölmargir ferðamenn um Norðurland og Kjöl hafa staldrað þar við  og kynnt sér málefni Amnesty.  Sýningin inniheldur ágrip af sögum nokkurra einstaklinga sem félagar Íslandsdeildar Amnesty International hafa átt þátt í að frelsa síðustu 30 árin. Þetta fólk var fangelsað fyrir þær sakir einar að tjá trú sína eða skoðanir, eða vegna kyns síns og uppruna. Þetta fólk kallar Amnesty International samviskufanga.

Nú fer að líða að lokum sýningahalds og framundan er síðasta sýningarhelgi.  Áhugasamir eru hvattir til að nýta tækifærið og kynnast umhverfisvænni raforkuframleiðslu og starfi Amnesty International að mannréttindamálum.

Sýningin “Dropar af regni” dregur nafn sitt af orðum samviskufangans Mohamed El Boukili frá Marokkó. "Á dimmustu tímum fangavistar minnar komu orð ykkar og bréf sem dropar af regni, sem lengi hefur verið beðið eftir í endalausri eyðimörk. Frelsi mitt í dag er ávöxtur þols ykkar og þreks, vinnu og hugrekkis.“

Fréttasafn Prenta